Sagþang

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Fucus serratus
Enska: toothed wrack

Sagþang er fremur stórvaxinn brúnþörungur. Það er oftast 40 til 70 cm hátt en getur orðið meira en einn metri á hæð. Það er fest við klappir eða steina í fjörunni með heilli, óreglulegri festuflögu. Upp af henni vex sívalur stilkur sem flest út í greinótt blöð sem eru 2 til 3 cm á breidd. Sagþangið er oftast kvíslgreint en er stundum með víxlstæðar greinar. Greinileg miðtaug er í blöðunum og beggja vegna hennar eru blöðin með litlum, hvítum hárskúfum sem sjást vel þegar blaðið þornar. Jaðar blaðanna er áberandi sagtenntur, með tennur sem vísa upp. Sagþang þekkist vel af tönnunum. Það er gulleitt, ljósbrúnt eða ólívugrænt. Á greinunum eru engar loftfylltar bólur. Sagþang er fjölær planta sem lifir í 2 til 5 ár Hún vex um 4 til 12 cm á ári.

Víð Ísland vex sagþang eingöngu við Suður- og Suðvesturland eða á svæðinu frá Vestmannaeyjum, umhverfis Reykjanes og inn í Hvalfjörð. Það vex einungis í fremur skjólsælum fjörum. Sagþangið vex á klöppum eða stórum steinum neðst í fjörunni, neðan klóþangsins en ofan við rauðþörungabeltið sem er við neðri mörk fjörunnar.

 

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?