Sædjöfull

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Ceratias holboelli
Danska: Holbølls storangler
Enska: deep-sea angler, Kroeyer's deep-sea angler
Þýska: Grönland-Angler, Riesenangler
Franska: grand pêcheur abyssal
Rússneska: Церация / Tserátsija

Sædjöfull er hávaxinn fiskur, stórvaxinn, klunnalegur og kviðmikill. Haus er stór og kjaftur víður og mjög skástæður. Tennur á skoltum eru í meðallagi stórar og oddhvassar. Engar tennur eru á gómbeinum né á plógbeini. Augu eru ofarlega á haus, mjög lítil og vaxin himnu á gömlum fiskum. Tálknaop eru lítil. Fremri bakuggi er einn geisli ofan á haus á milli augna og á enda hans er ljósfæri. Þessi geisli getur dregist inn í í húðina og út að aftanverðu og þá virðast vera komnir tveir geislar. Framan við aftari bakugga eru tveir holdmiklir separ eða kúlur. Aftari bakuggi er allhár og þakinn himnu á milli uggageisla. Raufaruggi er andspænis aftari bakugga og svipaður honum að lögun en aðeins styttri. Sporður er mjög stór og himna á milli geislanna. Eyruggar eru litlir og kviðugga vantar. Bolur er frekar stuttur, styttri en stirtlan. Roðið er laust í sér og alsett smáum örðum sem eru hvítar í oddinn. Rák er ekki sjáanleg. Í maí árið 1988 veiddist 125 cm sædjöfull, sennilega í Jökuldjúpi, og er hann líklega sá lengsti sem veiðst hefur.

Litur er svartur til gráleitur. Ljósfæri eru hvít.

Geislar: Bl: 1,- B2: 3-5,- R: 4-5.

Heimkynni sædjöfuls eru í öllum heimshöfum. Í norðaustanverðu Atlantshafi hefur hann veiðst við Austur-Grænland, á Íslandsmiðum, suðvestur af Írlandi og við Asóreyjar. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hann við Kanada, Bandaríkin og víðar.

Hér varð sædjöfuls fyrst vart á 120 m dýpi á Selvogsbanka í maí árið 1914. Síðan hefur hann veiðst alloft á svæðinu frá Hvalbakshalla og Litladjúpi undan Suðausturlandi vestur með landinu allt norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Þá hefur einn sædjöfull veiðst á djúpmiðum undan Norðurlandi. Um 100 sædjöfulshrygnur veiddust á Íslandsmiðum á árunum 1914-2000 og allmargar hafa bæst við það sem af er þessari öld. Síðan 1981 hafa fengist næstum árlega tveir eða fleiri sædjöflar hér við land. Sædjöflar þessir eru af öllum stærðum, allt frá 13 til 125 cm langir.

Lífshættir: Sædjöfull er miðsævis-, botn- og djúpfiskur sem lifir á 120-1100 m dýpi eða dýpra. Hængarnir, sem eru flestir 4-6 cm langir (en geta orðið a.m.k. 19 cm), lifa áfastir hrygnunni og stundum eru fleiri en einn á þeirri sömu. Þá vantar augu, tennur og veiðistöng og meltingargöng þeirra eru ummynduð enda fá þeir næringu frá gestgjafa sínum, hrygnunni.

Lítið er vitað um fæðu sædjöfuls en stundum hafa fundist leifar fiska í maga þeirra sem veiðst hafa og eru þeir oft svo illa farnir að

þeir eru ógreinanlegir til tegundar. Þá er þar stundum eitthvert gums sem gæti minnt á marglyttuleifar. Oft eru bandormar áberandi í görnum sædjöfla þeirra sem hér veiðast en varla geta þeir flokkast undir fæðu.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?