Rauðskinni

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Barbourisia rufa
Danska: fløjls-hvalfisk
Sænska: Scharlakansfisk
Enska: Velvet whalefish

Útlit

Rauðskinni er nokkuð langvaxinn, þéttvaxinn og straumlínulaga beinfiskur með stóran endastæðan kjaft. Skoltar ná langt aftur fyrir augu sem eru mjög smá. Á skoltum eru mjög smáar og þéttstæðar tennur. Tennur á plógbeini eru einnig mjög smáar en á gómbeinum eru engar tennur. Bak- og raufaruggar eru allstórir, aftarlega og andspænis hvor öðrum. Bakuggi er lengri en raufaruggi og nær lengra fram. Eyr- og kviðuggar eru frekar smáir. Kviðuggar eru um miðjan fisk. Sporður er stór og spyrðustæði sterklegt. Engir gaddar eru í uggum. Hreistur er smátt og fíngaddað og nær fram á haus. Rák er mjög greinileg og með einfaldri holuröð og er fjöldi hola frá haus aftur að sporðblöðku 28-33. Engin Ijósfæri eru sjáanleg. Rauðskinni getur orðið meira en 40 cm langur og sá lengsti á Íslandsmiðum mældist 42 cm.

Litur: Nýveiddur er rauðskinni rauður eða appelsínugulur á lit..

Geislar: B: 19-22,- R: 15-18; hryggjarliðir: 40-43.

Heimkynni

Rauðskinni hefur m.a. veiðst undan Flórída, austan Nýfundnalands, undan Labrador, undan suðvesturströnd Afríku, við Madagaskar í Indlandshafi og í Norðvestur-Kyrrahafi við Japan. Þá hefur einn fundist á 1100 m dýpi undan Fiskanesi við Vestur-Grænland og tveir hafa veiðst í flotvörpur Íslenskra togara suðaustur af Hvarfi við Grænland. Sá fyrri, sem var 22 cm langur, veiddist í júní 1994 á stað sem næst 58°N, 35°46'V en hinn, sem var 33 cm að sporði, veiddist í júlí á 585-715 m dýpi á stað sem næst 57°50'N, 36°00'V. Í maí 1997 veiddist einn 25 cm langur rétt utan 200 sjómílna fiskveiðilögsögunnar suðvestur af Íslandi (61°29'N, 30°48'V). Sá fyrsti sem veiddist innan Íslenskrar lögsögu fékkst í maí 1995 í flotvörpu á 715 m dýpi djúpt suðvestur af Reykjanesi (62°19'N, 29°43'V) þar sem botndýpi var 1830 m. Hann var 37 cm langur. Annar veiddist í maí 1996 í botnvörpu á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Hann mældist 26 cm. Sá þriðji veiddist í m1999 á Reykjaneshrygg og var 32 cm. Sá fjórði veiddist í lok október árið 2000 í botnvörpu á 825 m dýpi á grálúðuslóðinni vestan Víkuráls (65°50'N, 28°00'V) og var hann 34 cm langur. Í júní 2002 veiddist einn, 40 cm langur, á úthafskarfaslóðinni nálægt fiskveiðimörkum suðvestur af Reykjanesi og í júní 2003 veiddist annar, 42 cm langur, í flotvörpu á 915 m dýpi djúpt suðvestur af Öndverðarnesi (64°17'N, 27°29'V). Árið 2005 veiddust þrír rauðskinnar, einn vestan Víkuráls og tveir djúpt suðvestur af Reykjanesi, 2006 veiddist einn djúpt vestur af Reykjanesi og 2009 veiddist einn á úthafskarfaslóð suðvestur af landinu.

Lífshættir

 

Rauðskinni er miðsævis-, úthafs- og djúpfiskur sem lítið er vitað um. Þeir fiskar sem veiðst hafa á norðurslóð fengust á 600-1100 m dýpi og fiskar undan ströndum Suður-Afríku voru á 550-1500 m dýpi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?