Rauðserkur

Mynd: Svanhildur Egilsdóttir Rauðserkur
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Beryx decadactylus
Danska: Nordisk beryx
Færeyska: Reyðserkur
Norska: Beryx
Sænska: Nordisk beryx
Pólska: Beryks krepy
Enska: Red bream
Þýska: Kaiserbarsch
Franska: Dorade rose
Spænska: Béryx rouge
Portúgalska: Imperador
Rússneska: Берикс / Bériks, Крaсный берикс / Krásnyj bériks, Берикс альфонсо / Bériks al'fónsos

Útlit

Rauðserkur er hár og þunnvaxinn fiskur, hausstór og stóreygur. Ungir fiskar eru með sterklegan gadd á haus. Neðri skoltur teygist örlítið fram fyrir þann efri. Tennur eru smáar. Gómbein og plógbein eru tennt. Koktennur eru vel þroskaðar. Bakuggi er allstór, á miðju baki og með fjórum broddgeislum. Fjórði geislinn er lengstur og teygist aftur á ungum fiskum. Raufaruggi er stór, lengri en bakuggi og fremri rætur hans eru framan við aftari rætur bakugga. Sporður er stór og djúpsýldur. Spyrðustæði er frekar grannt. Eyr- og kviðuggar eru í meðallagi. Hreistur er stórt. Rauðserkur nær allt að 100 cm. Í mars 1950 veiddist 63 cm rauðserkur í sunnanverðu Jökuldjúpi og er hann sennilega sá stærsti sem veiðst hefur á Íslandsmiðum.

Litur: Rauðserkur er rauður og appelsínugulur á lit.

Hryggjarliðir: 24.

Heimkynni

Heimkynni rauðserks eru í Miðjarðarhafi og Atlantshafi frá Íslandi (e.t.v. flækingar við Grænland) og Noregi í norðri, vestur fyrir Bretlandseyjar og þaðan suður til Suður-Afríku. Einnig er hann í vestanverðu Norður-Atlantshafi frá Nýja-Skotlandi og Maineflóa suður til Kúbu og norðanverðrar Suður-Ameríku. Þá er hann í Suðvestur- Atlantshafi undan ströndum Argentínu, Urúgvæ og Suður-Brasilíu. Einnig í Indlandshafi, við Ástralíu, Nýja-Sjáland, Japan og Hawaiieyjar í Kyrrahafi.

Hér við land fannst rauðserkur fyrst í mars árið 1950 í sunnanverðu Jökuldjúpi (63°50'N, 24°25'V). Síðan hafa nokkrir bæst við á svæðinu frá Rósagarði undan Suðausturlandi og vestur með suðurströndinni og norður með Vesturlandi allt norður á Halamið undan Norðvesturlandi. Fiskar þessir voru 39-63 cm langir.

Lífshættir

Rauðserkur er botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 200-990 m dýpi, einkum í landgrunnshöllum. Ungir fiskar, allt að 25 cm lengd, halda sig meira miðsævis.

Fæða er einkum alls konar krabbadýr, Iitlir fiskar og smokkfiskur.

Nytjar

Þar sem eitthvað veiðist af rauðserk er hann settur á markað og nýttur.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?