Orðufiskur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Polyipnus polli
Danska: Rund sølvøkse
Enska: Round hatchetfish

Myndin af orðufiski er tekin af eintaki sem búið var að geyma í frysti, ný mynd verður tekin við fyrsta tækifæri.

 

Orðufiskur er hávaxinn og þunnvaxinn, sporöskjulaga fiskur með stóran haus, mjög stór augu og lóðréttan kjaft. Framan við bakugga eru í stað kambs tveir örsmáir tindar. Bakugginn er alllangur og aftan við hann er lítill veiðiuggi. Raufaruggi er andspænis aftari hluta bakugga og veiðiugga. Sporðurinn er allstór en eyr- og kviðuggar frekar smáir. Aftan við augun eru smágaddar sem vísa upp. Hreistur er laust og sundmagi er vel þroskaður.

Mest áberandi við orðufiskinn eru öll þau ljósfæri sem prýða hann, hangandi á hliðum eins og verðlaunapeningar. Frá kverk að kviðugga er kviðlæg röð 10 Ijósfæra og eru tvö þau fremstu aðeins minni, frá kviðugga að raufarugga eru fimm ljósfæri og ofan raufarugga eru sex. Þá eru nokkur Ijósfæri á haus, bol og stirtlu á milli ógreinilegrar rákar og kviðljósfæra.
Orðufiskur verður um 6 cm á lengd.
Litur: Orðufiskur er dökkleitur á baki, en í silfraður á hliðum.

Hryggjarliðir: 32-34.

Heimkynni orðufisks eru í hlýrri hlutum Atlantshafs autanverðs á milli 20°N og 10°S. Auk þess hefur hann fundist suðvestur af Madeira (30°55'N, 25°19'V), við Ísland og Suðvestur-Grænland.

Hér veiddist einn 5,5 cm langur á 400- 500 m dýpi í Grænlandshafi (63°58'N, 28°45'V) í ágúst árið 1994 og annar 4,4 cm veiddist í janúar árið 1995 á 530-605 m dýpi í Háfadjúpi austan við Vestmannaeyjar (63°19'N, 19°40'V). Þá veiddist einn 6 cm langur í flotvörpu á 340-350 m dýpi (botndýpi: 370-380 m) í utanverðum Víkurál (66°00'N, 26°44'V) í byrjun mars árið 2000. Einnig hefur orðufiskur veiðst rétt utan 200 sjómílna fiskveiðilögsögunnar undan Suðvesturlandi. Í júní 2003 veiddist einn 4 cm langur á 325 m dýpi rétt utan fiskveiðilögsögunnar suðvestur af landinu (60°26'N, 28°41 'V).

Lífshættir: Orðufiskur er úthafs- og miðsævisdjúpfiskur sem lítið er vitað um.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?