Órækja

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Pasiphaea tarda
Enska: Crimson glass shrimp

Glerrækjur Pasiphaeidae

Glerrækja er samheiti yfir órækju og tannarækju, en þær eru af ætt rækja Caridea. Það er mjög auðvelt að rugla þessum tveim tegundum saman. Til þess að aðgreina þær þarf að skoða fjölda gadda efst á öðru fótapari, þeir eru 0‐5 á órækju og 7‐12 á tannarækju. Þessi skoðun gerist ekki með berum augum, heldur verður að skoða rækjurnar í víðsjá. Hér verður eingöngu fjallað um órækju þar sem tannarækja hefur aðeins örsjaldan verið greind.

Einkenni: Órækja getur orðið talsvert stór, eða um 20 cm að heildarlengd. Hún er rauð og hvít að lit og getur verið gagnsæ á köflum. Hún er hliðarflöt og spjót er mjög stutt og endar í gaddi sem sveigist niður á við. Líkt og á öðrum Caridea tegundum liggur annar skjaldarliður á hala ofan á þeim fremri og aftari (númer 1 og 3). Fyrstu tvö fótapör eru grófari en hin og lengri (Squires, 1990).

Fundarstaðir órækju við Ísland. Rauðir punktar eru úr trolli, svartir úr skjóðu og bláir úr fæðusýnum. Línurnar sýna 200, 500 og 1000 m dýptarlínur.

Fundarstaðir órækju við Ísland. Rauðir punktar eru úr trolli, svartir úr skjóðu og bláir úr fæðusýnum. Línurnar sýna 200, 500 og 1000 m dýptarlínur.

Útbreiðsla: Órækja er aðallega miðsjávartegund en finnst einnig grunnt. Útbreiðsla hennar er norðlæg; Norður‐Atlantshaf, út af norðausturströnd Bandaríkjanna, við Grænland, Ísland og Noreg. Við Ísland hefur órækja fundist í landgrunnskantinum allt í kringum landið. Hún hefur aðallega greinst í fæðusýnum (bláir punktar á mynd), en fyrir Norðurlandi hefur hún fundist bæði í rækjutrolli og skjóðu. Við Ísland hefur hún fundist á 100 – 1383 m dýpi og við hitastig ‐1,2 – 9,1 °C.

 

Lífshættir: Órækja er rándýr. Við Kanada var magainnihald órækju greint og þar fundust ljósátur, pílormar, rækjuleifar og smokkfiskur (Squires, 1990).

Nytjar: Órækja er ekki nytjuð en hún veiðist sem meðafli í úthafsrækjuveiðum við Ísland.

Heimild: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/raekjutegundir-vid-island

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?