Nafnlausi mjóri

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Lycodes squamiventer
Danska: bugskællet ålebrosme
Færeyska: skrubbuti úlvfiskur
Norska: skjell-ålebrosme
Sænska: fjällig ålbrosme
Enska: scalebelly eelpout
Rússneska: Чешуебрюхий ликод / Tsjeshujebrjúkhij likód

Nafnlausi mjóri líkist mest fölva mjóra í útliti og var upphaflega talinn vera djúpsjávarafbrigði af honum (Lycodes pallidus squamiventer). Síðar var nafnlausi mjóri gerður að sértegund og hefur verið það lengi en nýlega er farið að dusta rygkið af gömlu kenningunni og fræðingar farnir að velta því fyrir sér að sameina tegundirnar aftur. Nafnlausi mjóri greinir sig m.a. frá fölva mjóra í því að hreistur er smærra og kviður er hreistraður. Hreistur nær allt til róta kviðugga á fullorðnum fiskum og á hliðunum nær það til róta eyrugga. Þá eru kviðuggar lengri á nafnlausa mjóra en á fölva mjóra. Af öðrum einkennum má nefna að rák er bæði miðlæg og kviðlæg. Kviðlæga rákin liggur frá rótum eyrugga og allt til enda fisksins en sú miðlæga er ógreinilegrt, oft lítt greinanleg. Fjarlægðin frá trjónu að rauf er 36,4-42% af lengd fisksins að sporði. Nafnlausi mjóri verður um 26 cm.

Litur er brúnn án bletta eða randa. Lífhimna er dökkbrún eða svört.

Geislar: B: (87)90-93(100); R: (77)80-82(87); E:18-19(20); hryggjarliðir: (97)100-101(107).`*

Heimkynni nafnlausa mjóra eru við Norðaustur Grænland, kadur sjór Íslandsmiða, Grænlandssund og í hafinu norðan Íslands. Einnig norðan Noregs til Svalbarað. Var áður ranglega greindur á hafinu vestan Grænlands.

Hér við land fannst nafnlausi mjóri fyrst á 980-1750 m dýpi undan Austurlandi í Ingólfsleiðangrinum 1895-1896. Hann veiðist alltaf öðru hverju á djúpmiðum undana Vestur-, Norður-og Austurlandi.

Lífshættir: Nafnlausi mjóri er botn- og djúpfiskur á leirbotni í köldum sjó allt frá 0°C til 3,9°C. Hann hefur veiðst á 350-1800 m dýpi. Fæða er mest ýmis smá botndýr. Í 26 cm hrygnu sem veiddist í júní í austanverðu Norður-Atlantshafi voru 60 egg 3,5 mm í þvermál, í ágústlok.

*Tölur frá Íslandsmiðum eru utan sviga.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?