Marhnýtill

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Cottunculus microps
Danska: almindelig paddeulk
Færeyska: kryttlingur
Norska: paddeulke
Sænska: paddulk
Enska: arctic sculpin, polar sculpin
Þýska: polarquappengroppe
Franska: cotte polaire
Rússneska: Малоглaзый коттункул / Maloglázyj kottonkúl

Marhnýtill er stuttvaxinn fiskur, haus- stór og afturmjór. Kjaftur er lítill, jafnskolta og tennur eru smáar. Augu eru frekar smá og yfir þeim eru hvöss horn eða hnúðar og einnig ofan á hausnum. Bolur er stuttur og mjókkar aftur eins og stirtlan. Bakuggi er langur, byrjar aftan við haus og er lægstur fremst og með broddgeislum. Raufaruggi er frekar lágur og styttri en bakuggi. Sporður er allstór. Eyruggar eru stórir og ná aftur fyrir fremri rætur raufarugga. Kviðuggar eru grannir og ekki nema þrír geislar.

Hreistur vantar og rák er greinileg. Stærð marhnýtils er allt að 30 cm. Hér hefur hann veiðst stærstur 27 cm í október 2009 á 690 m dýpi norðan við Sléttugrunn (67° 18'N, 16°51 'V). Hrygnur verða stærri en hængar.

Litur: Marhnýtill er Ijósleitur á lit og dökkflekkóttur til þverröndóttur.

Geislar: B: VI-VIII+13-15,- R: 10-11,- E: 17-19; K: 1+3,- hryggjarliðir: 28-29.

Heimkynni marhnýtils eru við Færeyjar og í Færeyja-Hjaltlandsrennunni, í Norðursjó, við Noreg norður til Finnmerkur og í Barentshafi

austur til 39°A, við Svalbarða, Ísland og Austur- og Vestur-Grænland og frá Davissundi suður til Nýju-Jersey í Bandaríkjunum.

Við Ísland fannst marhnýtill fyrst á 286 m dýpi út af Hvalbak undan Suðausturlandi í byrjun ágúst árið 1925. Síðan hefur hann veiðst á svæðinu við Reykjaneshrygg, á djúpslóð norður með Vesturlandi, undan Norður- og Austurlandi, þar sem hann er nokkuð, algengur og út á Íslands-Færeyjahrygg.

Lífshættir: Marhnýtill er botnfiskur á 170- 1000 m dýpi á mjúkum botni. Lítið er vitað um hrygningu hér við Iand en nærri fullþroskuð hrogn, 4,5 mm í þvermál, hafa fundist í hrygnum í Barentshafi í júní til júlí.

Fæða er burstaormar, smákrabbadýr og fleira.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?