marsi (íslenska)

Marhnútur

Samheiti á íslensku:
marsi
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Myoxocephalus scorpius
Danska: marulk, pelekunter, pillekunter, ulke, vanlig ulke
Færeyska: ulka
Norska: marulk, pelekunter, pillekunter, ulke, vanlig ulke
Sænska: rötsimpa
Enska: bull-rout, father lasher, short spined sea scorpion, shorthorn sculpin
Þýska: Seeskorpion
Franska: scorpion de mer
Rússneska: Европейский керчaк / Jevropéjskij kertsják

Marhnútur er hausstór fiskur og afturmjór með stóran kjaft og smáar tennur. Augu eru í meðallagi stór og framan við þau eru tveir gaddar og aðrir tveir aftast á augabrúnum. Á vangabeini eru þrír broddar og er sá efsti stærstur. Á efra tálknaloksbeini er sterklegur gaddur og einn á neðra tálknaloki. Bolur er stuttur og stirtla er grönn. Bakuggar eru tveir, vel aðgreindir og er sá aftari Iengri. Andspænis honum er raufaruggi svipaður að Iengd eða örlítið styttri. Sporður er allstór. Eyruggar eru mjög stórir og breiðir. Kviðuggar eru langir. Á hængunum eru smábeinörður dreifðar á hliðum beggja vegna rákar en annars er roðið slétt. Hængar eru með lim. Marhnútur nær um 40 cm stærð hér en allt að 60 cm í Norðurhöfum og 79 cm við Kanada. Algeng stærð er 20- 25 cm.

Litur er mjög breytilegur eftir aldri, kyni og umhverfi. Oft eru marhnútarnir brúnleitir að ofan, ljósir á hliðum og gulleitir á kvið. Á stöku uggunum eru oft þverrákir og Ijós blettur á sporðrót. Á eyruggum eru fjórar til fimm dökkar og gular þverrákir. Um hrygningartímann verða hængarnir mjög flekkóttir, rauðir og gulir á hliðum og kviði.

Geislar: B1: VII-XI, B2: 13-19,- R: 9-15,- E: 14-19; K: 1+3; hryggjarliðir: (32)34- 36(39).

Heimkynni marhnúts eru í norðaustanverðu Atlantshafi við Ísland, þar sem hann er algengur allt i kringum landið, Færeyjar, Noreg, í Skagerak, Kattegat, dönsku sundunum og Eystrasalti, í Norðursjó, við Bretlandseyjar og allt suður í Biskajaflóa. Þá er hann í Barentshafi frá Svalbarða til Novaja Semlja. Við Grænland og Norður-Ameríku frá New York norður til Nýja-Skotlands og Nýfundnalandsmiða, Labrador og Baffinslands og síðan norðan Kanada í Hudsonflóa og allt til Alaska - reyndar talinn vera undirtegund, Myoxoceþhalus scorpius groenlandicus, af sumum fræðingum.

Lífshættir: Marhnúturinn er botnfiskur á grýttum og þaragrónum sand- og leirbotni frá 0-250 m dýpi en algengastur er hann á 2-25 m dýpi. Hann finnst einnig í ísöltu vatni ármynna og strandsjávar.

Fæða er alls konar fiskar, svo sem síld, lýsa, sandsíli og hornsíli, fiskahrogn og seiði, ígulker, krabbadýr, þar á meðal trjónukrabbi, marflær og þanglýs, skeldýr og eiginlega allt sem að kjafti kemur og hann ræður víð. Marhnúturinn étur einnig eigin félaga séu þeir minni og viðráðanlegir.

Hér við land hrygnir marhnúturinn frá miðjum janúar til febrúarloka í hlýja sjónum sunnan- og suðvestanlands en síðar norðan- og norðaustanlands. Egg eru smá, 2-2,5 mm í þvermál og fjöldi þeirra 2500-2700. Þeim er hrygnt í kekki við botn og hængurinn gætir þeirra síðan. Nýklakin seiði eru 5-8 mm löng og eru sviflæg og verður vart í svifi allt umhverfis landið í apríl til júní. Þegar seiðin eru um 15 mm löng þá leita þau botns. Síðla sumars eru seiðin komin á botninn á 0-80 m dýpi og farin að líkjast foreldrum sínum. Hængar eru orðnir kynþroska 15 cm langir og þriggja ára gamlir en hrygnur 20 cm og fjögurra ára. Fiskar sem eru 20-30 cm langir eru oftast 4-6 ára gamlir.

Nytjar: Nytsemi er engin hér en marhnúturinn mun vera sæmilega ætur þegar hann er ekki mjög illa haldinn af hringormum í holdi. Sums staðar er hann nýttur til beitu og í Labrador og á Grænlandi mun hann vera étinn af íbúum.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?