Margbroddabakur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Polyacanthonotus challengeri
Enska: Longnose tapirfish

Margbroddabakur er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur sem mjókkar aftur eftir og endar í oddmjóum sporði. Haus er meðalstór og trjónan um tvöföld lengd augna. Skoltarnir ná aftur á móts við fremri jaðar augna. Fremri og aftari nasaop eru þéttstæð. Langur bakuggi samanstendur af fjölda smárra og sterklegra gadda. Raufarugginn nær frá miðjum fiski og aftur að sporði. Þá er rákin greinileg. Lengd er allt að 60 cm.

Litur: Margbroddabakur er gráblár á lit að ofan en dökkblár að neðan eins og fjölbroddabakur. Rák er þó dekkri og greinilegri á margbroddabak.

Heimkynni margbroddabaks eru í öllum heimshöfum. Í Norðaustur-Atlantshafi hefur hann m.a. veiðst undan Marokkó, við Kanaríeyjar, Asóreyjar og Ísland. Á Íslandsmiðum veiddist einn 59 cm langur á um 2265 m dýpi um 120 sjómílur suður af Ingólfshöfða (61°50'N, 16°54'V) í ágúst árið 1995.

Lífshættir: Margbroddabakur er djúpfiskur sem fundist hefur á 1300-3700 m dýpi - oftast á 2000-3000 m.

Fæða margbroddabaks er botnlægir hryggleysingjar, einkum marflær, agnir og burstaormar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?