Loðhali

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Coryphaenoides mediterraneus
Danska: Middelhavsskolæst
Færeyska: Miðjarðarhavslangasporl
Enska: Mediterranean grenadier

Loðhali er hausstór, allstóreygður og langvaxinn fiskur sem fer afturmjókkandi frá haus aftur á halaenda sem er án sporðblöðku. Haus loðhala er þverstýfður að framan, kjaftur stór og endastæður. Á neðri skolti er hökuþráður sem er lengri en þvermál augna. Fremri bakuggi er hár og annar bakuggageisli (þ.e. fremsti fullþroska geisli) er sagtenntur að framan. Aftari bakuggi er langur og lágur og rennur saman við raufarugga við sporðenda. Raufaruggi er lengri og hærri en bakuggi- nær fram á móts við aftari rætur fremri bakugga. Eyruggar eru vel þroskaðir. Kviðuggar eru undir eða framan við eyruggarætur og fremsti geisli teygist alllangt aftur. Hreistur er hrjúft og rák greinileg. Loðhalinn getur orðið a.m.k. 74 cm á lengd.

Litur: Loðhali er brúnn á lit en tálknalok og gelgjuhimnur eru svartleitar. Innanverður kjaftur og tálknalok eru dökk eða dökkbrún.

Heimkynni loðhala eru í vestanverðu Miðjarðarhafi og norðaustanverðu Atlantshafi frá Asóreyjum og suðvestanverðum Spáni vestur fyrir Bretlandseyjar. Þá hefur hann veiðst á Íslandsmiðum. Loðhali er einnig í Mexíkóflóa. Á Íslandsmiðum veiddust nokkrir loðhalar um miðjan september árið 1973 í rannsóknarleiðangri Vestur-Þjóðverja á rannsóknaskipinu Walter Herwig á 1427-2060 m dýpi djúpt undan vestanverðu landinu (65°15´N, 29°15´V, 64°26´N, 29°05°´, 64°30´N, 28°44°´). Á tíunda áratug 20 aldar veiddust nokkrir í leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar, einkum á Reykjaneshrygg.

Lífshættir: Loðhali er miðsævis,- botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 1200-3000 m dýpi. Fæða hans er smá botnlæg krabbadýr.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?