Langhalabróðir

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Trachyrhynchus murrayi
Danska: Murrays skolæst
Færeyska: trant langasporl
Sænska: slätfjällig skoläst
Enska: roughnose grenadier
Franska: grenadier-scie

Langhalabróðir er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur. Mesta hæð er við fremri bakugga og þaðan fer fiskurinn smámjókkandi aftur eftir og endar í oddmjóum sporði. Hausinn er mjög stór, trjóna oddmjó og framteygð og með frekar hvössum hliðarbrúnum sem ná yfir og aftur fyrir kjaft. Augu eru stór. Smáar tennur eru á skoltum. Hökuþráður er örsmár.

Bakuggar eru tveir, sá fremri stuttur og byrjar á móts við afturrönd tálknaloka en sá aftari langur og byrjar andspænis eyruggaenda rétt aftan fremri bakugga og nær alveg aftur á stirtluenda eða að sporðblöðku sem rétt vottar fyrir. Raufaruggi er næstum jafnlangur bakugga og nær einnig að sporðblöðku. Lítil sporðblaðka er greinanleg frá bak- og raufarugga. Eyruggar eru í meðallagi stórir, kviðuggar litlir nema fyrsti geisli þeirra sem er lengstur og teygist langt aftur. Rák er greinileg og liggur hátt. Hreistur er meðalstórt og eru smágaddar á sumum blöðunum. Beggja vegna við framanverðar rætur bak- og raufarugga og framan við þá er hreistur sem líkist tönnum. Kviður er hreisturlaus á milli kviðugga og raufar. Langhalabróðir getur orðið rúmlega 40 cm langur.

Litur er Ijós en bak- og raufaruggi, fyrsti geisli kviðugga og kjafthol eru svört.

Heimkynni langhalabróður í Norðaustur-Atlantshafi eru í hafdjúpunum undan suðvestanverðu, sunnan- og suðaustanverðu Íslandi, vestan Færeyja og Bretlandseyja. Þá er hann við suðvestanvert Grænland og Labrador.


Á Íslandsmiðum fannst langhalabróðir fyrst í Ingólfsleiðangrinum 1895-1896 á 889 m dýpi undan Suðvesturlandi (62°58'N, 23°28'V). Sá fiskur var 12 cm langur. Á síðustu árum hafa allmargir langhalabræður veiðst á djúpmiðum sunnan-, suðvestan- og vestanlands og er þessi tegund algeng á 500-1000 m dýpi undan Vesturlandi og á Reykjaneshrygg.

Lífshættir: Langhalabróðir er botn- og djúpfiskur sem heldur sig mest á leirbotni á um 500 til 1600 m dýpi.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?