Langa

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Molva molva
Danska: Lange
Færeyska: Longa
Norska: Lange
Sænska: Långa
Enska: Ling
Þýska: Leng
Franska: Grande lingue
Spænska: Maruca
Portúgalska: Maruca, donzela
Rússneska: Мольва / Mól'va

Langa er langur og mjóvaxinn fiskur, sívalur og hausstór. Kjaftur er stór og fiskurinn undirmynntur með smáar tennur. Á höku er skeggþráður. Augu eru ekki mjög stór. Bakuggar eru tveir og sá fremri stuttur en sá aftari mjög langur. Raufaruggi er einnig langur en þó styttri en aftari bakuggi. Sporður er allstór og bogadreginn fyrir endann. Roð er þykkt með smáu hreistri. Rák er greinileg.

Langa getur orðið yfir 200 cm á lengd og sú lengsta sem mæld hefur verið á Íslandsmiðum var 212 cm. Veiddist hún í október 1998 í botnvörpu á 105-159 m dýpi á Síðugrunni (63°32'N, 17°11'V).

Litur er grámórauður að ofan en ljós að neðan.

Heimkynni löngu eru svipuð og blálöngu í norðaustanverðu Atlantshafi frá Norður-Noregi suður í Skagerak og Kattegat, í norðanverðum Norðursjó, norðan og vestan Bretlandseyja suður í Biskajaflóa og til Spánar, Portúgals og Marokkós inn í vestanvert Miðjarðarhaf. Hún er við Færeyjar og Ísland. Við suðvestanvert Grænland hefur hennar orðið vart (þó að einhverjir hafi dregið það í efa) og hún hefur veiðst á Stórabanka við Nýfundnaland.

Við Ísland veiðist langa einkum undan Suðaustur-, Suður- og Suðvesturlandi, en hún hefur fundist allt í kringum landið.

Geislar: B1: 13-16,- B2: 60-70,- R: 57-66; hryggjarliðir: 62-68.

Lífshættir: Langan er botnfiskur sem veiðst hefur á 15-1000 m dýpi en er algengust á 100-400 m. Það eru einkum ungir fiskar sem halda sig grynnra en 100 m.

Fæða löngu eru ýmsar fisktegundir eins og síld, flatfiskar, spærlingur, þorskur, ýsa og fleiri en einnig étur hún ýmsa hryggleysingja eins og krabbadýr, sæstjörnur og fleira.

Hrygning fer fram á tímabilinu maí til júní á 150-300 m dýpi við brúnir landgrunnsins. Langan hrygnir hér undan Suður- og Vesturströndinni á svæðinu frá Hornafirði til Breiðafjarðar og einkum á milli Vestmannaeyja og Reykjaness. Eggin eru 5-20 milljónir í hverri hrygnu og eru þau um 1 mm í þvermál og sviflæg. Þau halda sig mest á 30-100 m dýpi undir yfirborði og berast með straumum þar til þau taka botn.

Langan hrygnir einnig í mars til júlí á um 200 m dýpi í Miðjarðarhafi, Biskajaflóa, á landgrunnsköntunum vestan Bretlandseyja, við Færeyjar og Noreg.

Langan verður kynþroska 5-8 ára gömul og 60-80 cm löng. Hún getur orðið að minnsta kosti 25 ára.

Óvinir löngunnar eru helst stórir fiskar eins og hákarl en auk þess ýmsir hvalir, svo sem höfrungar og háhyrningar. Þá leita á lönguna alls konar sníkjudýr.

Nytjar: Nytsemi Iöngu er allmikil. Árlega veiðist nokkuð af henni sem aukaafli í botnvörpu og á línu í norðaustanverðu Atlantshafi. Helstu veiðiþjóðir eru Norðmenn, Frakkar og Skotar. Aðalveiðisvæði eru í norðanverðum Norðursjó, norðvestan Skotlands og norðan Írlands og vestan Noregs. Hámarki náði lönguaflinn í norðaustanverðu Atlantshafi árið 1973 og varð tæp 67.800 tonn. Við Ísland varð aflinn mestur 15.390 tonn árið 1971 og veiddum við rúm 8.800 tonn af þeim afla.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?