Kolskeggur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Trigonolampa miriceps
Danska: Lys dragekjæftfisk
Færeyska: kolskeggi
Enska: Threelight dragonfish
Franska: dragon à trois lampes
Rússneska: Trigonolámpa

Kolskeggur er langvaxinn og þunnvaxinn fiskur. Haus er í meðallagi stór og einnig augu. Trjóna er lengri en þvermál augna. Kjaftur er stór og skoltar ná langt aftur fyrir augu og jafnlangt fram. Á skoltum eru hvassar tennur. Á plógbeini og gómbeinum eru tennur. Á neðri skolti er alllangur hökuþráður, örlítið styttri en hauslengdin, og rétt á enda hans er ljósfæri. Bak- og raufaruggi eru svipaðir að stærð, andspænis hvor öðrum, bakuggi nær þó aðeins lengra fram. Sporður er djúpsýldur. Eyruggar eru frekar litlir og lágstæðir. Kviðuggar eru stærri og liggja rétt aftan við miðju. Roð er hreisturlaust.

Auk áðurnefnds ljósfæris á hökuþræði eru ljósfæri aftan við augu, á fremsta geisla eyrugga að ógleymdri röð Ijósfæra eftir endilangri kviðrönd frá lífodda aftur að sporði. Ofan hennar er önnur samsíða röð frá haus aftur á móts við framanverðan raufarugga. Kolskeggur verður allt að 42 cm á lengd (einn slíkur veiddist í apríl 1999 á Reykjaneshrygg, 61°30'N, 27°30'V).

Litur: Kolskeggur er svartur á lit.

Geislar: B: 17-20,- R: 16-19.

Heimkynni: Fisktegund þessi hefur veiðst í Norður-Atlantshafi frá Dohrnbanka við Austur-Grænland og Íslandsmiðum suður á bóginn vestur og suðvestur fyrir Bretlandseyjar, við Kanaríeyjar og suður til 11°N, 24°V og í Suður-Atlantshafi sunnan 32°S. Í Norðvestur-Atlantshafi á milli 37°og 42°N. Hefur orðið vart við Suðvestur-Grænland.

Hér á Íslandsmiðum hefur kolskeggur veiðst á svæðinu frá Rósagarði, þar sem einn 27 cm langur veiddist í janúarlok árið 1983 á 365-420 m dýpi og Þórsbanka, suður fyrir land og vestur og norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Á árunum 1983 til 1990 veiddust um 10 kolskeggir á Íslandsmiðum. Þeir veiddust á 275-1100 m dýpi og voru 22-30 cm langir. Síðan hafa margir bæst við á þessu svæði og einnig djúpt suðvestur af Reykjanesi við og utan 200 sjómílna markanna og árlega veiðast nokkrir svo hann virðist ekki vera mjög sjaldséður.

Lífshættir: Kolskeggur er miðsævis- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 275-1860 m dýpi. Tennur benda til þess að hann sé ránfiskur. Hann veiðist einkum í flotvörpu en einnig í botnvörpu.



 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?