Kolmunni

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Micromesistius poutassou
Danska: blåhvilling, sortmund
Færeyska: svartkjaftur
Norska: blågunnar, blåhvitting, kolkjeft, kolmule
Sænska: kolmule, blåviting
Enska: blue whiting, poutassou
Þýska: Blauer Wittling
Franska: merlan bleu, poutassou
Spænska: bacaladilla, lírio
Portúgalska: maria-mole, pechelim, verdinho
Rússneska: Путассу / Putassú

Kolmunni Iíkist ufsa talsvert í vexti. Hann er langvaxinn og rennilegur með meðalstóran haus. Kjaftur er í meðallagi stór og yfirmynntur, þ.e. neðri skoltur nær lengra fram en sá efri. Tennur eru í tveimur röðum í efri skolti, allstórar og hvassar í ytri röðinni en aðrar tennur eru smáar. Kolmunni hefur engan hrökuþráð. Augu eru frekar stór en þó tiltölulega minni en á spærlingi. Bakuggar eru þrír og langt bil á milli þeirra. Fremstu bakuggarnir tveir eru svipaðir að stærð og lögun en sá aftasti er lægri og andspænis aftari raufarugga og svipaður honum í lögun. Raufaruggar eru tveir og sá fremri mun lengri. Sporðblaðka er stór og grunnsýld. Eyruggar eru í meðallagi en kviðuggar eru frekar smáir og liggja undir eyruggarótum eða rétt framan við þær. Ytri geislar í kviðuggum hænga eru miklu lengri en í kviðuggum hrygna og ná aftur að gotrauf. Hreistur er nokkuð stórt en þunnt. Rák er greinileg og sveigist örlítið niður að aftan. Kolmunni verður allt að 50 cm á lengd en algeng stærð er 22-30 cm. Sá lengsti sem veiðst hefur á Íslandsmiðum mældist 46 cm og fékkst í mars 1971 suður af Selvogsbankatá (63°0 I 'N, 22°02'V).

Litur er blágrár á baki, silfurgrár á hliðum og silfurhvítur á kviði. Rákin er mógrá. Kjaftur er svartur að innan.

Geislar: B1: 12-14; B2: 12-14; B3: 23-28; R1: 33-39; R2, 24-27; hryggjarliðir: 55-58.

Heimkynni kolmunna eru í Norðaustur- Atlantshafi og Barentshafi frá Svalbarða og Norður-Noregi vestur til Íslandsmiða, milli Íslands og Grænlands til Færeyja og meðfram strönd Noregs inn í Skagerak og Kattegat, um norðanverðan Norðursjó, norðan og vestan við Bretlandseyjar og suður um Biskajaflóa til Spánar, Portúgals og norðurstrandar Afríku. Í vestanverðu Miðjarðarhafi er sérstakur stofn. Í Svartahafi við Krímskaga hafa fundist kolmunnaseiði. Þá er kolmunni í Norðvestur-Atlantshafi undan ströndum Norður-Ameríku á milli 40° og 44° N, þ.e. frá austurenda Sableeyjabanka suður fyrir Woodshole í Massachusetts. Við Falklandseyjar í Suðvestur-Atlantshafi og við Nýja- Sjáland í Suðvestur-Kyrrahafi er skyld tegund, Micromesistius australis. Hún er miklu stórvaxnari og verður allt að 90 cm löng.

Við Ísland er kolmunni einkum undan Vestur-, Suðvestur-, Suður- og Austurlandi en hann hefur einnig sést undan Norðurlandi. Á sumrin og haustin berst oft mikið af smáum kolmunna á fyrsta ári upp að suðaustur- og suðurströnd Íslands frá hrygningarstöðvunum við Bretlandseyjar. Mikið af honum heldur sig við suður- og vesturströndina fyrstu eitt til tvö árin, þ.e. þar til hann verður kynþroska.

Lífshættir: Kolmunni er úthafs-, miðsævis- og uppsjávarfiskur en yngri fiskar halda sig mikið við botn. Kolmunninn finnst á ýmsu dýpi allt frá yfirborði og niður á 1000 m. Fullorðnir fiskar eru algengastir á um 150-450 m dýpi en ókynþroska fiskar grynnra. Oft myndar kolmunninn smátorfur.

Fæða kolmunna er fjölbreytileg. Yngri kolmunni étur ýmiss konar svifdýr og fiskaseiði en eldri og stærri kolmunnar éta m.a. rauðátu, Ijósátu og smáan smokkfisk, auk ýmissa smáfiska eins og laxsíldar og fleira.

Aðalhrygningarsvæði kolmunnans í norðaustanverðu Atlantshafi er við landgrunnsbrúnina norðvestan og vestan Bretlandseyja og norður undir færeyska landgrunnið þar sem hann hrygnir á 250-450 m dýpi nálægt botni. Einnig á sér stað hrygning í smáum stíl suðvestur af Íslandi, við Vestur-Noreg, í Biskajaflóa og við Spán og Portúgal. 

Í Biskajaflóa hefst hrygning í janúar til febrúar, vestan Bretlandseyja í febrúar til mars og í maí til júní við suðvestanvert Ísland og Noreg. Egg og lirfur eru sviflæg. Lirfurnar klekjast út á um vikutíma við 8-11 °C og eru þær 2-3 mm á lengd við klak.

Að lokinni hrygningu fer stærstur hluti kolmunnans sem hrygnir vestan og norðvestan Bretlandseyja í ætisgöngur norður á bóginn. Hann er við Færeyjar seint í apríl og byrjun maí og dreifist síðan um hafið milli Íslands og Noregs og fer jafnvel norður í Barentshaf. Einnig slæðist hann upp að Austfjörðum og meðfram suðurströnd Íslands. Í október hefst gangan til baka og í nóvember til desember er kolmunninn kominn á svæðið á milli Íslands og Færeyja og norður og norðaustan Færeyja þaðan sem hrygningargangan hefst í desember til janúar.

Á áttunda áratug 20. aldar var mikið um kolmunna á milli Íslands og Grænlands. Hann hvarf að mestu á fyrri hluta níunda áratugarins.

Vöxtur kolmunnans er hraður fyrsta árið og er hann orðinn 18-20 cm eftir eitt ár. Síðan dregur úr vaxtarhraðanum og við sjö ára aldur er hann orðinn um 32 cm langur. Kolmunninn verður almennt kynþroska tveggja til fjögurra ára gamall og getur orðið um 20 ára. Hrygnur eru stærri en hængar og geta orðið um 50 cm langar en hængarnir rúmlega 40 cm.

Óvinir kolmunnans eru, auk mannsins, ýmsir ránfiskar eins og þorskur, ýsa og lúða. Vestan Bretlandseyja og sunnar er hann kærkominn biti fyrir lýsing. Einnig er talið að hvalir éti talsvert af honum. Þá sækja ýmis sníkjudýr á hann, m.a. hringormar eins og hvalormur (Anisakis simplex) en lirfur hans eru í dvala í kviðarholi kolmunna. Í lifur kolmunnans eru gróhylki frumdýrs eins (Eimeria sp.) og valda þau kolmunnanum stundum miklum skaða.

Nytjar: Nytsemi kolmunna er mikil. Hann er nýttur að mestu leyti til mjöl- og lýsisframleiðslu en dálítið til manneldis. Þó er ýmsum erfiðleikum bundið að nýta hann þannig.

Sovétmenn og Spánverjar hófu kolmunnaveiðar í norðaustanverðu Atlantshafi árið 1970 og varð aflinn það ár tæp 38 þúsund tonn. Árin 1979 og 1980 náði aflinn hámarki og varð rúmlega 1,1 milljón tonna hvort ár og veiddist bróðurparturinn á milli Íslands og Noregs. Íslendingar hófu kolmunnaveiðar í tilraunaskyni árið 1972 og veiddu þeir 634 tonn. Mestur varð afli Íslendinga árið 2003 en þá veiddum við 501 þúsund tonn.

 

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?