Klapparþang

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Fucus spiralis

Klapparþang er blaðlaga brúnþörungur sem er 10 til 30 cm hár. Það er fest við botninn með skífulaga festu. Upp af festunni er sívalur stilkur sem endar í greinóttum blöðum. Blöðin eru ½ til 1 cm breið með greinilegri miðtaug. Þau eru kvíslgreind og eru sjaldan með loftblöðrum sem eru aflangar, tvær og tvær saman sín hvorum megin miðtaugarinnar. Greinar klapparþangsins eru uppsnúnar og er það greinilegast á efstu greinunum. Klapparþangið er brúnt eða gulbrúnt á litinn en getur orðið rauðleitt eftir langvarandi þornun. Það er fjölært og getur orðið a.m.k. 5 ára gamalt.

Við Ísland er klapparþang algengt í kringum allt land. Það vex á klöppum efst í fjörunni og þolir vel að þorna og getur jafnvel legið þurrt frá einum stórstraumi til þess næsta, í tæplega hálfan mánuð.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?