Jeffreys kýtlingur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Buenia jeffreysii
Danska: Jeffrey's kutling
Færeyska: Jeffreysar stubbi
Norska: Piggkutling
Sænska: Jeffreys smörbult
Enska: Jeffrey's goby
Þýska: Jeffreys Grundel
Franska: Gobie de Jeffreys

Jeffreys kýtlingur er lítill fiskur og jafnbola. Haus er í meðallagi stór, langur og breiður og ekki mjög kúptur. Kjaftur er í meðallagi, nær aftur fyrir fremri rönd augna. Fiskurinn er örlítið yfirmynntur eða jafnskolta. Augu eru stór og þéttstæð. Bolur er styttri en stirtla. Bakuggar eru tveir og bil á milli þeirra. Annar geisli í fremri bakugga hænganna er lengri en hinir geislarnir. Sporður er bogadreginn fyrir endann. Eyruggar eru stórir og ná aftur fyrir fremri bakugga. Kviðuggar eru samvaxnir á innri rönd. Hreistur er stórt. Haus er hreisturlaus. Jeffreys kýtlingur verður um 6 cm á stærð.

Litur: Jeffreys kýtlingur er fölgrár til appelsínugulur á lit með ryðbrúnu ívafi. Á hvorri hlið eru fimm dökkir blettir sem fara smækkandi aftur úr.

Geislar: Bl: V-VIII, B2: 1 + 8-10; R: 1+7-9; hryggjarliðir: 30.

Heimkynni þessa kýtlings eru í Norðaustur-Atlantshafi við Ísland, Færeyjar, Noreg, norðvestan og vestan Bretlandseyja og í vestanverðu Ermarsundi. Þá á hann að hafa fundist við Miðjarðarhafsströnd Frakklands.

Hér við land hafa seiði jeffreys kýtlings fundist við Suðaustur-, Suður- og Suðvesturland frá Eystrahorni til Breiðafjarðar. Fullorðnir fiskar fundust fyrst við ísland árið 2010 er sex jeffreys kýtlingar fundust í maga þorsks sem veiddist vestur af Garðskaga (63°59'N, 23°19'V). Þessir fiskar voru 3-5 cm langir, mældir að sporði.

Lífshættir: Jeffreys kýtlingur er botnfiskur á 5-350 m dýpi, oftast á 25-125 m, á sand-, leir-, skelja- og malarbotni.

Hrygning hér við land fer aðallega fram í júní. Seiði eru sviflæg en í ágústlok leita þau botns og eru þá 15-31 mm á lengd. Í miðjum september eru þau orðin 21-24 mm.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?