Ísalaxsíld

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Benthosema glaciale
Danska: isprikfisk
Færeyska: lítli prikkafiskur
Norska: nordlig lysprikkfisk
Sænska: ströms prickfisk, nordlig prickfisk
Enska: glacier lanternfish
Þýska: Eislaternenfisch
Franska: lanterne glacière
Rússneska: Бентосема / Bentoséma

Ísalaxsíld er frekar hávaxinn, stuttvaxinn og þunnvaxinn fiskur, með stóran skástæðan kjaft sem nær aftur fyrir augu. Augu eru mjög stór. Bolur er stuttur en stirtla löng. Raufaruggi byrjar andspænis miðjum bakugga eða örlítið framar og er lengri en hann. Lítill veiðiuggi er miðja veg á milli bakugga og sporðs . Eyruggar eru stuttir – ná ekki aftur að raufarugga og kviðuggar eru svipaðir eyruggum að stærð. Ljósfæri eru augnaljós, forljós, tvö eyruggaljós, fimm brjóstljós, fjögur raufarljós, sex raufaruggaljós, sjö stirtluljós, tvö spyrðuljós og það aftara hærra, eitt ofanraufarljós og kviðuggaljós. Mjög lítill ljóskirtill er ofan á stirtlu hjá hængum en neðan á stirtlu hjá hrygnum. Ísalaxsíld verður allt að 19 cm á lengd.

Geislar: B: 12-15; R: 16-19; hryggjarliðir: 35- 36.

Heimkynni ísalaxsíldar eru í Miðjarðarhafi og Norður- Atlantshafi, heimshafa á milli allt frá Grænhöfðaeyjum í suðri til Svalbarða og Austur- Grænlands að austan og frá Davissundi við Vestur- Grænland og Baffinsflóa til Hattershöfða í Bandaríkjunum að vestan. Ísalaxsíld mun vera algengasta laxsíldartegundin í Norður- Atlantshafi. Hún hefur veiðst hér m.a. undan suður- og suðvesturströndinni en gæti verið allt í kringum landið.

Lífshættir: Ísalaxsíd er úthafs-, uppjávar- og miðsævisfiskur sem veiðst hefur niður á um 1500 m dýpi en er að mestu frá yfirborði og niður á 850 m dýpi. Hún heldur sig í 0 – 18 °C heitum sjó en kjörhiti er 4-16°C. Íslaxsíld verður kynþroska 3-5 cm löng og hrygnir 160 -2000 eggjum eftir stærð hrygnu. Hún getur orðið átta ára gömul. Fæða ísalaxsíldar er einkum krabbaflær , ljósáta og fleiri smádýr. Sjálf er ísalaxsíld eftirsótt fæða margra fisktegunda.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?