Hveljusogfiskur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Careproctus reinhardti
Danska: Reinhardts ringbug, spidshalet ringbug
Færeyska: Íshavssúgfiskur
Norska: nordlig ringbuk
Sænska: slemsugare
Enska: longfin snailfish, sea tadpole
Franska: Limace à longues nageoires
Rússneska: Северный карепрокт / Sévernyj kareprókt

Hveljusogfiskur er stuttvaxinn, hvapmikill fiskur og hlaupkenndur, hálfsívalur að framan en þynnist aftur eftir og mjókkar. Haus er stór og kúptur að ofan með stutta trjónu. Kjaftur er endastæður og neðarlega á haus. Tennur eru smáar á skoltum. Á trjónu, ofan efri skolts og á neðri skolti eru stórir slímnabbar. Tálknaop eru lítil. Augu eru í meðallagi stór og framan við hvort auga er pípulaga nös. Aftara nasaparið vantar. Bakuggi er mjög langur og byrjar á móts við miðja eyrugga. Raufaruggi er næstum jafnlangur bakugga. Báðir ná þeir út á sporðblöðku sem er lítil og þverstýfð fyrir endann. Eyruggar eru mjög stórir og bogadregnir fyrir endann. Neðstu geislar hans teygjast langt aftur. Kviðuggar eru ummyndaðir í litla sogflögu sem er á stærð við augun. Roð er þykkt og glotkennt og myndar eins konar glæra himnu utan um fiskinn. Stærð er allt að 30 cm.

Litur: Hveljusogfiskur er gulrauður til appelsínugulur á lit. Fjólublá slikja er á bak- og raufaruggum.

Geislar: B- 51-62,- R: 45-51.

Heimkynni hveljusogfisks eru í köldum sjó Norður-Atlantshafsins og Barentshafs frá Múrmansk til Svalbarða og Jan Mayen. Þá er hann á milli Noregs og Íslands, norðan Færeyja, við Ísland, Austur- og Vestur-Grænland, Kanada og Nýfundnaland.

Á Íslandsmiðum finnst hveljusogfiskur í kalda sjónum undan Norðvestur-, Norður-, Norðaustur- og Austurlandi og er ekki mjög sjaldséður.

Lífshættir: Hveljusogfiskur er botn- og e.t.v. miðsævisfiskur að einhverju leyti í köldum sjó og á eða yfir leirbotni á 125— 1200 m dýpi.

Fæða hans er smákrabbadýr og smáfiskar.

Lítið er vitað um hrygningu. Hugsanlega fer hún fram síðsumars eða að hausti. Egg eru stór, 4,5 mm í þvermál og fjöldi þeirra um 300.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?