Humar

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Nephrops norvegicus
Danska: jomfruhummer
Færeyska: hummari
Norska: hummer
Enska: European lobster
Þýska: Europäischer Hummer, Hummer
Franska: Langoustine
Spænska: cigala

 

Humarinn er rauðgulur eða rauður á lit, oftast þó hvítleitur að neðan. Fullvaxinn er hann 20–25 cm á lengd frá augnkrikum aftur fyrir hala. Kvendýrin eru minni en karldýrin og verða sjaldan meira en 18 cm á lengd. Humarinn verður kynþroska þegar hann hefur náð um 8–9 cm lengd. Humarinn greinist í frambol og hala. Frambolurinn er hulinn einni skel en halinn er liðskiptur með 6 liðum og skel yfir hverjum lið. Fram úr frambolnum, ofan til, gengur tennt trjóna sem sveigir lítið eitt upp á við fremst og er um það bil helmingur af lengd frambols. Augun sitja á stuttum stilkum í krika fremst við rætur trjónunnar. Fram undan trjónunni vaxa fjórir fálmarar. Mynstur er í halaskjöldunum líkt og letrað sé í þá og er íslenska nafnið leturhumar dregið af því. Undir hverjum lið á hala eru tveir sundfætur og aftast á halanum eru 5 breiðar skelblöðkur og er afturrönd þeirra hærð.
Niður undan frambolnum ganga fjögur fótapör og enda fjórir fremstu fæturnir í lítilli gripkló. Fram úr dýrinu ganga tveir sterklegir griparmar sem enda í aflangri kló. Griparmarnir eru nærri jafnlangir og dýrið allt.

Við Ísland lifir humarinn einungis í hlýja sjónum við suðurströndina frá Hornafirði vestur um og inn í Faxaflóa. Norðurmörk útbreiðslunnar hér við land eru við Snæfellsnes og er hann aðallega veiddur á 110 til 270 m dýpi. Einstaka humrar hafa þó fundist norðar allt norður í Ísafjarðardjúp.

Humarinn tekur bráð sína með klónum og brytjar hana smátt áður en hann étur hana. Humarinn étur mest burstaorma, smávaxin krabbadýr, skeljar og ígulker en einnig hefur fundist mikið af smáum frumdýrum í maganum sem hugsanlega fylgja með þegar humarinn étur bráð sína á yfirborði leirsins.

Hér við land æxlast hvert kvendýr aðeins annað hvert ár. Mökun hjá humrinum fer fram á sumrin eftir að kvendýrin hafa haft skelskipti og nýja skelin er enn lin (talað er um að dýrin séu "lin í skel"). Ári eftir mökun, eða í maí og júní, hrygnir kvendýrið. Við hrygningu límast frjóvguðu eggin við sundfæturna undir halanum hjá kvendýrinu. Þar haldast eggin á meðan þau þroskast.

Þroskun lirfa í eggjunum tekur um eitt ár og á þeim tíma étur kvendýrið lítið sem ekkert og heldur sig í holu sinni. Í maí og júní, ári eftir hrygningu klekjast lirfur úr eggjunum. Kvendýrið skríður þá úr holunni, lyftir upp halanum og þeytir örsmáum lirfunum undan honum með því að slá fótunum kröftuglega aftur. Lirfurnar þyrlast út í sjóinn og fljóta upp undir yfirborð. Lirfurnar eru í svifinu í 1-2 mánuði áður en þær setjast aftur á botninn.

Þar sem hörð skel humarsins umlykur líkamann getur dýrið ekki vaxið nema losna við skelina. Á meðan humarinn er í vexti losar hann sig því reglulega við skelina og myndar jafnframt nýja sem er stærri en sú fyrri. Humarinn vex því í stökkum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?