stóri karfi (íslenska)

Gullkarfi

Samheiti á íslensku:
gullkarfi, stóri karfi
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Sebastes norvegicus
Danska: stor rødfisk
Færeyska: stóri kongafiskur
Norska: uer
Sænska: rödfisk, större kungsfisk
Enska: golden redfish, red ocean perch, redfish
Þýska: Goldbarsch
Franska: grand sébaste, poisson rouge, sébaste atlantique
Spænska: gallineta dorada
Portúgalska: peixe vermelho, vermelho
Rússneska: Морской окунь золотистый / Morskój ókun' zolotístyj

Karfinn er hár fiskur og fremur þunnvaxinn. Hann er hausstór, snjáldurstuttur, kjaftstór og yfirmynntur. Tennur eru litlar. Augu eru stór. Á vangabeini eru fimm broddar og vísa tveir þeir efstu aftur en hinir þrír niður. Á tálknaloksbeini eru tveir broddar. Bakuggi er einn og langur. Að framan er hann lágur með 14- 16 broddgeislum en hár að aftan með 13- 16 liðgeislum. Raufaruggi er stuttur með 3-4 broddgeislum fremst en aftar eru 7-10 liðgeislar. Eyruggar eru stórir og kviðuggar eru vel þroskaðir. Sporðblaðka er stór. Hreistur er stórt og rák er greinileg. Gullkarfi getur orðið 90-100 cm en er sjaldan lengri en 40-50 cm. Algeng stærð er 35-40 cm.

Litur: Karfinn er rauður til appelsínugulur á lit á baki og hliðum en nærri hvítur á kviði. Stundum sjást brúnir karfar.

Geislar: B: XIV-XVI+13-16; R: 111- IV+7-10; hryggjarliðir: 30-32.

Heimkynni karfans eru í Norður-Atlantshafi og Barentshafi. Hann er norður við Svalbarða og við Novaja Semlja, við Noreg allt suður í Kattegat, í norðanverðum Norðursjó, vestan og norðan Skotlands til Færeyja og Íslands. Hann er og meðfram landgrunninu frá Íslandi til Austur- og Vestur-Grænlands. Þar er hann að austanverðu norður til 66°N og að vestanverðu norður til Umanakfjarðar á 71°N. Þá er hann við Labrador og Nýfundnaland og suður til Maineflóa í Bandaríkjunum.

Við Ísland er karfinn allt í kringum landið en hann er mun algengari suðaustan-, sunnan- og vestanlands en undan Norður- og Austurlandi.

Lífshættir: Karfinn er ýmist miðsævis- eða botnfiskur oft við botn á daginn en uppi í sjó á nóttunni og veiðist hann niður á 500 m dýpi og stundum dýpra, jafnvel niður á 800—1000 m en best virðist hann kunna við sig á 100—400 m dýpi og við 3—8°C.

Fæða karfans er einkum smákrabbadýr (Ijósáta, rauðáta o.fl.), pílormar og fiskseiði þegar hann er ungur (minni en 20 cm) en fullorðnir karfar éta aðallega ljósátu og ýmsa fiska eins og síld, loðnu og þorskfiska, auk rækju og fleira góðgætis. Einnig étur hann eigin afkvæmi.

Það sem greinir karfann einkum frá flestum öðrum beinfiskum er að hann á lifandi afkvæmi og gýtur hann í einu 37- 350 þúsund seiðum. Er sjaldgæft að fiskur sem gýtur lifandi afkvæmum eigi svo mörg í einu. Seiðin eru 5-7 mm við klak.

Karfahængarnir eru kynþroska á haustin og fyrri hluta vetrar frá því í september fram í desember og þá fer eðlunin fram. Þar sem gotan og eggin eru um þetta leyti lítt þroskuð í hrygnunum geymist sæðið í gotunni þar til eggin eru tilbúin til frjóvgunar en það gerist í febrúar og mars. Klakið tekur síðan 4-5 vikur og fer þá gotið fram í apríl til maí og sennilega uppi í sjó á 200-500 m dýpi við 4-8°C.

Aðalgotstöðvar karfa í Norðaustur-Atlantshafi munu vera suðvestur af Íslandi en einnig gýtur karfi undan vesturströnd Noregs milli Lófóts og Finnmerkur. Í Norðvestur-Atlantshafi eru gotstöðvar undan Norður-Ameríku og í Davissundi. Fyrst í stað halda seiðin sig í yfirborðslögum sjávar en dýpka a sér með aldrinum. Karfaseiðin suðvestur af landinu taka sér bólfestu á botninum við Austur- Grænland og á íslenska landgrunninu, einkum norðanlands og austan. Fullorðinn karfi flækist víða um í fæðuleit auk þess sem hann heldur árlega til gotstöðvanna.

Erfitt hefur reynst að aldursákvarða karfa og hefur fiskifræðinga greint á um það hvernig skilja beri hringi sem greinast í kvörnum. Nú er almennt hallast að því að karfinn sé seinvaxta fiskur og verði ekki kynþroska fyrr en 12-15 ára gamall og er hann þá um 35-37 cm langur.

Hér við land hefur karfi m.a. fundist í maga búrhvals. Einnig gera lúða og aðrir stórir fiskar sér „dælt" við hann. Karfaseiði verða þorski, fullorðnum körfum og fleiri fiskum að bráð. Ymis sníkjudýr sækja á karfann. Í innyflum eru spóluormar og bandormar og útvortis setjast á hann sníkjudýr af krabbaflóaætt. Einnig sést stundum á karfanum krabbadýrið sníkjuorða, Sphyrion lumpi, þótt það sé ekki mjög algengt.

Nytsemi karfa er mikil. Ýmsar þjóðir hafa stundað og stunda karfaveiðar í norðaustanverðu Atlantshafi og má þar nefna Íslendinga og Þjóðverja.

Það var reyndar ekki fyrr en eftir 1920 að farið var að veiða karfa að einhverju gagni og voru það Þjóðverjar sem sýndu honum mestan áhuga. Íslendingar sinntu ekki karfaveiðum fyrr en eftir 1930. Karfaaflinn var ekki mikill í norðaustanverðu Atlantshafi fram undir 1950 og mest af honum var tekið á Íslandsmiðum. Árið 1938 veiddust tæp 105 þúsund tonn og þar af tæp 65 þúsund tonn á Íslandsmiðum og árið 1950 varð karfaaflinn rúm 153 þúsund tonn og þar af voru 126 þúsund tonn tekin á Íslandsmiðum. Árið 1951 komst karfaaflinn á Íslandsmiðum í rúm 166 þúsund tonn og veiddu Íslendingar um 97 þúsund tonn af þeim afla. Mestur varð gullkarfaafli Íslendinga á Íslandsmiðum árin 1982-1984 en þá veiddu Íslendingar tæp 97 þúsund tonn árið 1982, rúmlega 86 þúsund tonn árið 1983 og 84 þúsund tonn árið 1984. Þessi sömu ár varð heildargullkarfaaflinn á Íslandsmiðum um 98, 87 og 85 þúsund tonn.

Á árunum 1954-1976 veiddu Íslendingar mikið af gull- og djúpkarfa við Austur-Grænland, við Vestur-Grænland 1953-1967 og við Nýfundnaland 1958-1967. Mestur varð karfaafli Íslendinga á þessum fjarlægu miðum árin 1958 og 1959 um 90 þúsund tonn hvort ár.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?