Gráháfur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Galeorhinus galeus
Danska: gråhaj
Færeyska: gráhávur
Norska: gråhai
Sænska: gråhaj
Enska: schoolshark, soupfin shark, tope
Þýska: Biethai, Grundhai, Hundshai
Franska: milandre, requin hâ
Spænska: caço, cazón
Portúgalska: perna-de-moça, tubarão-da-sopa
Rússneska: Atlantítsjeskaja supovája akúla

Gráháfur er grannvaxinn og rennilegur háfur með langan og frammjóan haus. Stærð haussins er um fimmtungur lengdarinnar. Trjóna er oddmjó, flöt og löng og hálfgegnsæ. Lítill flipi hylur nasir að nokkru. Augu eru með blikhimnu. Innstreymisop eru vel þroskuð. Tálknaop eru smá. Tennur eru hvassar og að hluta sagtenntar. Bolurinn er tvöfalt lengri en hausinn. Stirtlan er grönn. Bakuggar eru tveir og sá fremri, sem er miklu stærri, er rétt aftan við eyrugga. Aftari bakuggi er álíka stór og raufaruggi og er andspænis honum eða aðeins framar. Eyruggar eru stórir og þríhyrndir en kviðuggar eru frekar smáir. Sporður er stór og uppsveigður og með djúpt skarð í neðri fönina. Roðið er hrufótt af svo örsmáum húðtönnum að það virðist slétt þegar strokið er eftir því. Rákin er ógreinileg. Gráháfur getur náð 200 cm lengd.

Litur: Gráháfur er dökkgrár eða stálgrár að lit eða jafnvel Ijósbrúnn að ofan en blágrár eða Ijósgrár á hliðum, hvítur eða Ijós á kvið.

Heimkynni hans eru í Miðjarðarhafi og austanverðu Atlantshafi alveg frá Suður- Afríku norður til stranda Noregs um Norðursjó og umhverfis Bretlandseyjar. Hann finnst við Færeyjar og hér hefur hans orðið vart að minnsta kosti fjórum sinnum. Fyrst veiddist 1 42 cm hrygna á línu á 30 m dýpi við Grindavík í ágúst árið 1911. Í júlí 1912 veiddist 134 cm hængur í hrognkelsanet við Akurey hjá Reykjavík. 1 janúar 1997 veiddist 146 cm gráháfur í botnvörpu á 220—275 m dýpi í Síðugrunnskanti. Hann hafði verið merktur í júlí 1994 við eyna Tiree við Skotland. Þá veiddist 130 cm hængur í net á 120-130 m dýpi 8 sjómílur suðvestur af Grindavík í júlí árið 1998.

Auk þessa lifir gráháfur í austanverðu Kyrrahafi, frá Bresku-Kólumbíu suður til Kaliforníuskaga og flóa en einnig við Perú og Chile. Þá er hann við Ástralíu og Nýja Sjáland. Í vestanverðu Suður- Atlantshafi er hann við Argentínu, Úrúgvæ og Suður- Brasilíu.


Lífshættir: Gráháfurinn er grunn- og botnfiskur sem heldur sig einkum á 2—470 m dýpi á malar- eða sandbotni en hann heldur einnig upp í efri lög sjávar. Hann hefur veiðst á túnfisklínu yfir miklu dýpi.

Hrygnan gýtur að sumri til eftir tæplega árs meðgöngutíma 20-40 ungum sem eru 35-40 cm langir við got. Kynþroska er náð við 120-180 cm lengd.

Fæða er m.a. ýmsir þorskfiskar, til dæmis lýsa og þyrsklingur en einnig flatfiskar eins og sandkoli, sólflúra og flundra auk annarra botnfiska. Einnig étur gráháfurinn krabbadýr og ígulker.

Nytjar: Víða þar sem gráháfur veiðist er hann nýttur og þykir hin besta fæða, m.a. eru uggarnir eftirsóttir í súpur. Þá er hann vinsæll sportveiðifiskur.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?