Græðisangi

Mynd vantar Græðisangi
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Holtbyrnia anomala
Danska: Storhovedet skulderlysfisk
Færeyska: Djúpangi
Enska: Bighead searsid

Græðisangi er þunnvaxinn og hausstór fiskur. Hann er allhávaxinn á mótum hauss og bols en fer smámjókkandi þaðan og aftur úr. Trjónan er frammjó og skoltar ná vel aftur fyrir augu, sem eru stór. Bakuggi og raufaruggi eru viðlíka langir en bakugginn nær aðeins lengra fram. Hreistur er smátt.

Ljósfæri eru lítt þroskuð nema eyruggaljósfæri en leifar ljósfæra á fullorðnum fiskum eru eins og hvítir eða litlausir, hreisturlausir kviðlægir deplar. Enginn vottur ljósfæra er á ungum fiskum. Græðisangi verður allt að 30 cm á lengd.

Litur: Græðisangi er dökkbrúnn á lit nema þar sem glittir í Ijósfæraleifar.

Geislar: B: 18-22,- R: 15-19,- rákarhreistur: 42-52.

Heimkynni græðisanga eru í hlýjum og tempruðum hlutum Atlantshafsins. Hann hefur m.a. fundist við Vestur- og Austur-Grænland, á Íslandsmiðum, vestan Bretlandseyja og við Asóreyjar.

Á Íslandsmiðum hefur græðisangi veiðst djúpt undan Suður-, Suðvestur- og Vesturlandi og í Grænlandshafi.

Græðisangi er miðsævis-, botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 700-2700 m dýpi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?