Göltur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Neocyttus helgae
Danska: Falsk havgalt
Færeyska: Rútarkongur
Enska: False boarfish
Franska: Arrose sourcilleuse

Göltur er mjög hávaxinn og þunnvaxinn, tígullaga fiskur. Haus er allstór og hausbein hrjúf þar sem hreistur vantar. Á trjónu er hreistur en tálknalok eru hreisturlaus. Augu eru stór, kjaftur frekar smár og skoltar eru framskjótanlegir. Bak- og raufaruggi eru langir og fremstu geislar þeirra eru mjög sterklegir gaddar. Í bakugga er annar geisli stærstur og sterklegastur, eins og horn, en í raufarugga er fremsti geisli stærstur. Hreistur er kambhreistur. Göltur getur náð a.m.k. 42 cm lengd

Litur: Göltur er gráleitur til ljósbrúnn á lit en uggahimnur og tálknalok eru svartleit. Geislar: B: VI-VIII+34-36 (VIII+33); R: III-IV+30-32 (IV+32). Í sviga eru tölur héðan.

Heimkynni: Göltur lifir í tempruðu hlutum suðurhvels jarðar. Auk þess hefur hann fundist við Asóreyjar, Madeira, í norðanverðum Biskajaflóa, suðvestan, vestan og norðvestan Írlands og við Ísland hefur hann veiðst sex sinnum. Sá fyrsti á Íslandsmiðum veiddist í maí árið 1989 á um 970 m dýpi á grálúðuslóð vestan Víkuráls. Hann mældist 41 cm. Sá næsti, 35 cm, veiddist í desember 1992 á 880 m dýpi út af Skaftárdjúpi. Þá veiddust tveir, 35 og 42 cm langir, í mars árið 1995 á um 1000 m dýpi á Kötluhrygg (62°55'N, 18°32'V) og einn, 23 cm langur, veiddist á 640-730 m dýpi í Berufjarðarál (63°50'N, 13°00'V) í maí 1995. Þannig hafa fimm geltir veiðst á 640-1000 m dýpi á svæðinu frá Berufjarðarál vestur á grálúðuslóð vestan Víkuráls á árunum 1989-1995. Sá fyrsti á íslandsmiðum á þessari öld veiddist í flotvörpu á rúmlega 800 m dýpi suðvestur af Reykjanesi (61°58'N, 28°08'V) í júní árið 2001. Hann mældist aðeins 9 cm langur. Í mars 2004 veiddist einn, 27 cm langur, í botnvörpu á 825-1100 m dýpi á grálúðuslóðinni vestan Víkuráls.

Lífshættir: Göltur er djúpfiskur sem veiðst hefur á 640-1210 m dýpi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?