Glyrna

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Howella sherborni
Enska: Sherborn's pelagic bass

Glyrna er stuttvaxinn og frekar hávaxinn fiskur. Mesta hæð er framan við fremri bakugga. Haus er allstór, frammjór, trjóna er stutt en augu eru mjög stór. Kjaftur er í meðallagi stór og nær efriskoltsbein á móts við mið augu. Tennur eru örsmáar í báðum skoltum. Á plógbeini eru ýmist nokkrar þéttstæðar tennur eða bara ein tönn og á gómbeinum er ein röð tanna. Á tálknaloksbeinum eru gaddar sem vísa aftur. Bakuggar eru tveir og vel aðgreindir. Bilið á milli þeirra er svipað og þvermál augna. Í fremri bakugga eru átta broddgeislar og er fremsti geisli mjög stuttur en sá fjórði lengstur. Í aftari bakugga er einn broddgeisli og níu liðgeislar. Raufaruggi er svipaður aftari bakugga að stærð og andspænis honum. Fremsti geisli raufarugga er mjög stuttur broddgeisli en þriðji geisli, einnig broddgeisli, er lengstur. Sporðblaðka er stór og djúpsýld. Eyruggar eru langir, ná aftur fyrir rauf. Kviðuggar eru vel þroskaðir. Haus er hreistraður á hliðum en uggar eru hreisturlausir nema rætur sporðs. Að öðru leyti er fiskurinn þakinn kambhreistri. Rák er greinileg og í þremur hlutum, þ.e. hún rofnar tvisvar, fyrst á milli eyruggaróta og fremri bakugga, síðan um miðja vegu á milli bakugga og er samfelld eftir það að sporðblöðku. Glyrna verður 11-12 cm a lengd.

Litur: Glyrna er dökkbrún á lit með silfurblæ, haus er Ijósari. Efri skoltur, efra horn tálknaloks og kverk eru með gulum blettum.

Geislar: B1, VIII; B2: 1+9-10,- R, 111+7- 8.

Heimkynni glyrnu eru í Norður-Atlantshafi og í vestanverðu Kyrrahafi. Hún hefur m.a. veiðst við Madeira, á milli Írlands og Íslands og á Íslandsmiðum þar sem hennar varð vart fimm sinnum á árunum 1952-2000.

Í norðvestanverðu Atlantshafi hefur glyrna veiðst frá Flæmingjagrunni austan Nýfundnalands og á Stórabanka suður fyrir Nýja-Skotland (Brownsbanki).

Hér fannst glyrna fyrst á 540 m dýpi í Rósagarðinum suðaustan Íslands í ágúst árið 1952. Sá fiskur var 10 cm langur. Þá veiddist11 cm glyrna vorið 1983 á 275-360 m dýpi á Þórsbanka suðaustan Íslands og í júlímánuði árið 1984 fékkst ein 10 cm löng í Lónsdjúpi.

Í október 1998 veiddist glyrna sem mældist 8,5 cm löng að sporði í Háfadjúpi (63°12'N, 19°52'V) og árið 2000 veiddist ein á 480- 560 m dýpi á Kötluhryggjum (63°10'N, 18°02'V).

Lífshættir: Glyrna er miðsævis- og botnfiskur og hafa ungir fiskar fundist miðsævis á 26-300 m dýpi en fullorðnir allt niður á 950 m og eru þeir sennilega meira við botn. Um fæðu og hrygningu er Iítið vitað.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?