Gíslaháfur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Apristurus laurussonii
Danska: Islandsk kattehaj
Færeyska: Islandshávur
Enska: Iceland catshark, deep-sea catshark
Franska: roussette d'Islande
Spænska: pejegato de Madera, pejegato islándico

Gíslaháfur er frekar grannvaxinn háfiskur og hæstur um miðjan bol eða a móts við aftari rætur bakugga. Hæðin er um 1/10 af lengdinni og mjókkar síðan jafnt aftur eftir. Hálfþrístrendur að framanverðu. Haus er breiður og flatur með allhvössum hliðarröndum alveg fram á trjónu sem er löng og bogadregin fyrir endann. Kjaftur er frekar lítill og kjaftviksskorur eru áberandi. Nasir eru víðar. Augu eru allstór. Tálknaop eru frekar lítil. Bolur er allgildur og þrefalt lengri en hausinn. Stirtla er sterkleg. Bakuggar eru tveir og mjög aftarlega. Sá fremri byrjar yfir miðjum eða aftanverðum kviðugga og sá aftari yfir miðjum eða aftanverðum raufarugga. Aftari rætur kviðugga eru nær sporðenda en trjónuenda. Sporður er fjórðungur af lengdinni, ekki uppsveigður og neðri fönin er nokkuð stór. Rákin er dauf. Hann verður um 75-80 cm á lengd.

Litur: Gíslaháfur er dökkrauðgrár en jaðrar stöku ugganna og eyrugganna eru blásvartir.

Heimkynni: Gíslaháfur finnst djúpt undan vestur-, suðvestur-, suður- og suðaustur- strönd Íslands og meðfram suðvestanverðum landgrunnsbrúnum Írlands, við Kanaríeyjar, Madeira og Asóreyjar. Við strendur Norður-Ameríku frá Nýja-Englandi til Mexíkóflóa er sama tegund eða önnur, Apristurus profundorum. Ennþá er ýmislegt óljóst um fjölda tegunda þessarar ættkvíslar í Norður-Atlantshafi og geta fleiri átt eftir að koma í Ijós á næstu árum.

Gíslaháfur fannst fyrst á Íslandsmiðum í júlí 1915 á 560 m dýpi suður af Bjarnarey við Vestmannaeyjar þegar 67 cm löng hrygna veiddist þar á línu. Hér var komin ný tegund fyrir vísindin. Nú veiðist hann alloft á 540-1390 m dýpi undan landinu suðaustan-, sunnan-, suðvestan- og vestanverðu. Hann virðist vera einna algengastur á meira en 900 m dýpi vestur af landinu allt norður á móts við Víkurál.

Lífshættir gíslaháfs eru lítt þekktir. Hann mun vera botnfiskur á 500- 1500 m dýpi og í hrygnu þeirri sem fyrst veiddist við Ísland var eitt fullþroskað egg í eggjakerfinu. Gýtur hann ef til vill síðsumars og fyrri hluta vetrar hornkenndum pétursskipum líkt og flestir frændur hans sömu ættar. Einnig gæti hann gotið allt árið. Í byrjun febrúar árið 2002 veiddist 63 cm hrygna með tvö vel þroskuð pétursskip auk allmargra smærri eggja sem voru mismunandi mikið þroskuð á 677 m dýpi vestan í eða við Íslands- Færeyjahrygginn (63°17'N, 13°53'V).

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?