Gaddahrognkelsi

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Eumicrotremus spinosus
Danska: pigget stenbider
Norska: vortekjeks
Sænska: taggig sjugrygg
Enska: Atlantic spiny lumpsucker
Franska: petite poule de mer Atlantique
Rússneska: Колючий пинагор / Koljútsjij pinagór

Gaddahrognkelsi er stuttvaxinn, digur og kúlulaga fiskur að framan en þunnvaxinn að aftan. Augu eru stór, kjaftur lítill og endastæður. Tennur eru mjög smáar og aðeins á skoltum. Bakuggar eru tveir og vel aðgreindir. Í fremri bakugga eru greinanlegir geislar en ekki ber kambur eins og á hrognkelsi. Aftari bakuggi og raufaruggi eru andspænis hvor öðrum og svipaðir að stærð. Sporðblaðka er greinileg. Eyruggar eru stórir og breiðir. Kviðuggar eru ummyndaðir í stóra sogblöðku. Roðið eða hveljan er alsett misstórum körtum líkt og á hrognkelsi en þó eru körturnar bæði stærri og óreglulegri. Stærð gaddahrognkelsis er allt að 13 cm.

Litur: Gaddahrognkelsi er þanggrænt eða brúnleitt á lit.

Geislar: B1: 6-7, B2: 10-12; R: 10-12, hryggjarliðir: 26.

Heimkynni gaddahrognkelsis eru í Barentshafi, við Novaja Semlja, Svalbarða, Jan Mayen og Ísland, einnig við Austur- og Vestur-Grænland, milli Grænlands og Kanada og við Kanada frá Hudsonflóa og Hudsonsundi og meðfram strönd Labrador til Stórabanka við Nýfundnaland og Lárensflóa, undan Nýja-Skotlandi suður til Maineflóa.

Gaddahrognkelsi fannst hér fyrst á Dýrafirði árið 1820 þegar það veiddist þar í hrognkelsanet. Síðan leið langur tími og það var ekki fyrr en sumarið 1985 að annað veiddist í rækjuvörpu á Strædebanka á milli Íslands og Grænlands. Á árunum 1986 til 1997 veiddust 9 gaddahrognkelsi til viðbótar, öll í rækjuvörpu, á rúmlega 300-450 m dýpi á svæðinu frá Dohrnbanka (66°30'N, 28°09'V) um Vestfjarðamið og Norðurkant að Kolbeinsey (67°34'N, 19°58'V). Lengd þeirra var 7,5-12 cm.

Lífshættir: Gaddahrognkelsi er botnfiskur sem heldur sig mest á grýttum botni en einnig grýttum leirbotni. Það hefur veiðst á 60-200 m dýpi í Barentshafi, niður á 250 m dýpi við Svalbarða, niður á 930 m dýpi við Vestur-Grænland og hér niður á um 450 m dýpi.

Um fæðu er lítið vitað nema marflær munu vera á matseðlinum.

Hrygnur með þroskuð egg hafa fundist í ágúst til september. Eggin eru 3,2-4,5 mm í þvermál og botnlæg. Fundist hafa hrognabú á 20-30 m dýpi við Grænland í ágúst.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?