Færeyjaháfur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Zameus squamulosus
Sænska: Svarthaj
Enska: Velvet dogfish
Þýska: Samtdornhai
Franska: Squale-grogneur à queue échan
Spænska: Bruja bocachica
Portúgalska: Areganhada-de-focinho-comprido

Ljósmynd vantar.

 

Færeyjaháfur er grannvaxinn og langvaxinn háfur með alllanga trjónu og flatan haus. Uggar eru allir velþroskaðir en raufarugga vantar. Í bakuggum vottar fyrir smá göddum. Tennur í efri skolti eru rýtingslaga en þrístrendar í neðri skolti. Hann getur orðið allt að 79 cm langur.

Litur: Færeyjaháfur er brúnn eða svartur.

Heimkynni Færeyjaháfs eru í norð-austanverðu Atlantshafi en tegundin hefur fundist frá suðausturmiðum (Færeyjahryggur-Rósagarður) þar sem einn veiddist í júní 1953, suður til Asóreyja, Madeira, Marokkós og Grænhöfðaeyja. Þá er hann við suðaustanverða Afríku og í norðanverðum Mexíkóflóa, og við Súrínam og Suður-Brasilíu.

Lífshættir: Þetta er lítt þekktur djúpháfur sem veiðist einkum við botn eða í grennd við botn á 550-1450 m dýpi. Einnig hefur hans orðið vart frá yfirborði niður á 580 m dýpi þar sem botndýpi er 2000 m (við Brasilíu).

Fæða er sennilega ýmsir smáfiskar og hryggleysingjar því tennur eru smáar og sömuleiðis kjaftur og ekki til þess að ráða við mjög stóra bráð.

Nytjar: Sums staðar í austanverðu Atlantshafi veiðist færeyjaháfur sem aukaafli í botnvörpu og á línu og er hann því stundum hirtur og saltaður til neyslu eða malaður í mjöl.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?