Dvergþang

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Pelvetia canaliculata
Enska: cow tang, channelled wrack, channel wrack

Dvergþang er smávaxinn brúnþörungur. Það er 5 til 10 cm hátt, ljósbrúnt á lit eða gulleitt. Greinarnar eru 1 til 4 mm breiðar, rennulaga og án miðtaugar. Greinarnar kvíslgreinast. Dvergþang er fest við botninn með lítilli, skífulaga festu. Enginn stilkur er á dvergþangi.

Dvergþang vex hægt eða 3 til 4 cm á ári þegar vöxtur er mestur. Talið er að dvergþangið geti orðið 4 ára gamalt.

Við strendur Íslands vex dvergþang eingöngu við Suðvestur- og Vesturland. Það vex á klöppum allra efst í fjörunni í fremur skjólsælum fjörum. Það þolir mjög vel að þorna og getur verið á þurru í allt að þrjár vikur.

Dvergþang er ein af fáum þörungategundum sem ekki þolir að vera samfellt á kafi í sjó en þarf að þorna öðru hvoru. Það getur því t.d. ekki vaxið í fjörupollum.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?