hrossamakríll (íslenska)

Brynstirtla

Samheiti á íslensku:
hrossamakríll
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Trachurus trachurus
Danska: hestemakrel
Færeyska: rossamakrelur
Norska: taggmakrell, hestemakrell
Sænska: taggmakrell
Enska: Scad, horse mackerel
Þýska: Bastardmakrele, Stöcker
Franska: chinchard commun, chinchard d'Europe
Spænska: jurel
Portúgalska: carapau
Rússneska: Jevropéjskaja stavrída

Brynstirtla er langvaxinn fiskur með allstóran haus, stutta trjónu og frekar lítinn kjaft. Neðri skoltur nær aðeins lengra fram en sá efri. Tennur eru smáar. Augu eru stór og að hluta hulin fituhúð. Bolur er stuttur og stirtla löng. Eftir endilangri rák er samfelld röð af stórum beinplötum. Plötur þessar eru með kili og broddi í miðju sem fer stækkandi aftur eftir stirtlunni. Mynda þær hvassan kamb á báðum hliðum sem er mjög einkennandi fyrir brynstirtlu. Bakuggar eru tveir og er á fremri stuttur og með átta broddgeislum en aftari bakuggi er lengri og með einn stuttan broddgeisla fremst. Raufaruggi er langur og lágur og framan hans eru tveir stuttir broddar og auk þess er einn stuttur broddgeisli fremst í honum. Eyruggar eru langir og kviðuggar af meðalstærð. Sporður er djúpsýldur. Hreistur er smátt og laust. Brynstirtla verður um 70 cm. Hér hefur hún veiðst stærst 53 cm.

Litur: Brynstirtla er þanggræn eða gráblá á lit með grænu ívafi á baki, silfurgljáandi á hliðum en hvít á kvið. Á tálknaloki eru svartir blettir.

Geislar: B1: VIII,- B2, [+29-36; R, H+I+24-32; hryggjarliðir: 24.

Heimkynni brynstirtlu eru í Miðjarðarhafi og austanverðu Atlantshafi frá Noregi suður til Suður-Afríku. Þaðan og norður til Gíneuflóa er undirtegundin Trachurus trachurus capensis. Í norðanverðum heimkynnum brynstirtlu eru greindir tveir stofnar: vestur- stofninn og Norðursjávarstofninn.

Brynstirtlan flækist alloft til Íslandsmiða. Varð hennar fyrst vart hér á árunum 1835-1840. Síðan varð hennar ekki vart fyrr en 1937 en þá fengust nokkrar við bryggju í Hafnarfirði. Sumarið 1941 fékkst mikið af henni allt í kringum landið. Síðan hefur hún veiðst nokkrum sinnum, einkum á svæðinu undan Suðaustur-, Suður- og Suðvesturlandi en þó víðar. Á síðari árum má nefna 1988, 1990, 1991, 1994, 1997 og 1998 sem mikil brynstirtlu ár. Í ágústmánuði árið 1994 varð t.d. vart brynstirtlu víða við landið, einkum frá Suðvesturmiðum norður með Vesturlandi til Norðvestur-, Norður- og Norðausturlands. Var víða svo mikið um hana að líkja má við brynstirtlugengdina árið 1941. Þessar brynstirtlur voru 30-40 cm langar og veiddust á 90-255 m dýpi. Árið 2006 veiddist 53 cm brynstirtla á Selvogsbanka.

Lífshættir: Brynstirtla er uppsjávarfiskur og er hún algeng víða í Norður-Atlantshafi þar sem hún lifir í stórum torfum frá yfirborði og niður á 100-200 m dýpi. Hún hefur fundist allt niður á 600 m dýpi. Hún nálgast land á sumrin en heldur til hafs á veturna.

Ungar brynstirtlur éta einkum svifverur eins og krabbalirfur, smákrabbadýr, kísilþörunga, fiskaegg og lirfur en fullorðnir fiskar éta fiska eins og síld, brisling, sardínu, ansjósu og geirnef en einnig krabbadýr og smokkfisk. Sjálf verður brynstirtlan öðrum fiskum og sjófuglum að bráð.

Í sunnan- og austanverðum Norðursjó fer hrygning svokallaðs Norðursjávarstofns fram í júní til ágúst. Að því loknu dreifist stofninn um Norðursjó, Skagerak og Kattegat. Á svæðinu frá Biskajaflóa til Írlands hrygnir vesturstofninn snemma vors og fer síðan í fæðugöngur norður fyrir Bretlandseyjar til Suður-Noregs og í norðanverðan Norðursjó.

Eggjafjöldi er allt að 140 þúsund. Hvert egg er minna en 1 mm í þvermál. Bæði egg og seiði eru sviflæg. Seiði eru um 5 mm við klak. Þau leita oft skjóls undir marglyttum ásamt ýsu og lýsu allt þar til þau hafa náð 3-4 cm lengd. Brynstirtlan verður kynþroska 3 til 4 ára og 25 cm löng.

Nytjar: Brynstirtla er stundum veidd í bræðslu og dálítið fer í almenna neyslu, helst í Suður-Evrópu.

við Afríku og í Suður-Atlantshafi hefur hennar orðið vart miðja vegu á milli Afríku og Suður-Ameríku.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?