tannsíld (íslenska)

Brislingur

Samheiti á íslensku:
tannsíld
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Sprattus sprattus
Danska: brisling, hvassild
Færeyska: brislingur
Norska: brisling, skarpsild
Enska: sprat
Þýska: Sprot, Sprotte
Franska: sprat
Spænska: espadín
Portúgalska: espadilha
Rússneska: Килька / Kíl'ka, Шпрот / Shprot

Útlit

Brislingur er smávaxinn fiskur af síldaætt, fremur þunnvaxinn líkt og síld en hærri um sig miðjan. Hann getur náð um 19 cm heildarlengd en verður þó sjaldan stærri en 17 cm. Litur á baki er blá- eða grænleitur og hliðar eru silfraðar. Á kviðrönd er þunnur snarptenntur kjölur sem er eitt af þeim einkennum sem greinir brisling frá síld. Þá eru rætur kviðugga undir eða rétt framan við upphaf bakugga, en hjá síld eru rætur kviðugga undir bakugganum.

Heimkynni

Útbreiðsla brislings nær frá Atlantshafsströnd Marokkós og norður í Norðursjó að suðurhluta Noregs og inn í Eystrasalt. Brislingur finnst umhverfis Bretlandseyjar allt norður til Færeyja. Þá finnst hann í Miðjarðarhafi, Adríahafi og Svartahafi. Brislingur finnst einkum á minna en 50 m dýpi.

Við Ísland fannst brislingur fyrst árið 2017 og frá 2020 hefur hann fengist árlega í stofnmælingaleiðöngrum að vori og hausti, á svæðinu frá Ingólfshöfða vestur og norður um að Jökulfjörðum.

Lífshættir

Brislingur er uppsjávar- og torfufiskur. Hann heldur sig á grunnsævi, oft nærri ströndum en hann finnst einnig dýpra. Brislingur finnst jafnvel í árósum þar sem hann þolir vel seltulítinn sjó. Brislingur hrygnir mest við ströndina á 10–20 m dýpi. Hrygningin skiptist í lotur og getur staðið í nokkra daga eða jafnvel mánuði. Eggin eru sviflæg og kjörhiti fyrir klak er 6–12°C.

Vöxtur er mismunandi eftir fæðu- og umhverfisskilyrðum. Í Eystrasalti og Norðursjó er um helmingur hrygna orðinn kynþroska við tíu cm lengd en hængar ná þessu hlutfalli um níu cm langir. Þá eru fiskarnir orðnir tveggja til þriggja ára gamlir. Við Ísland eru tveggja ára fiskar um 10-12 cm langir og þriggja ára er brislingur orðinn 14-17 cm.

Fæða brislings er aðallega dýrasvif, einkum krabbaflær. Á sumum svæðum á ákveðnum árstíma étur brislingur umtalsvert magn af eggjum botnfiska.

Nytjar

Miklar veiðar hafa verið stundaðar á brislingi. Stærstur hluti aflans fer í mjöl og lýsi, en brislingur er einnig nýttur til manneldis, ýmist ferskur, reyktur eða niðursoðinn. Heimsafli brislings var 46 þúsund tonn árið 1950 en jókst í nær eina milljón tonna árið 1975. Ársaflinn fór síðan niður í 220 þúsund tonn árið 1985 og var undir 500 þúsund tonnum allt til ársins 1994. Frá árinu 1994 hefur ársaflinn yfirleitt verið 600–700 þúsund tonn. Lang mest er veitt undan ströndum Norðvestur Evrópu og veiddu Danir, Svíar og Pólverjar um tvo þriðju heildaraflans á árunum 2010–2018. Engar veiðar hafa verið á brislingi á Íslandsmiðum.

Brislingur er mikilvæg fæða ýmissa fiska, sjófugla og sjávarspendýra og er þýðingarmikill hlekkur milli svifdýra og dýra ofar í fæðukeðjunni.

Heimildir/ ítarefni

Byggt á greininni Brislingur – ný fisktegund við Ísland. Höfundar: Jónbjörn Pálsson, Guðjón Már Sigurðsson, Ingibjörg G. Jónsdóttir, Klara B. Jakobsdóttir, Nicholas Hoad, Valur Bogason og Jón Sólmundsson (2021). Náttúrufræðingurinn 91: 122–13.

Grein um brisling í Náttúrufræðingnum hér.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?