Blettaálbrosma

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Lycenchelys kolthoffi
Danska: Kolthoffs porebrosme
Enska: checkered wolf eel
Franska: lycode quadrillée
Rússneska: Пятнистая лиценхела / Pjatnístaja litsenkhéla

Blettaálbrosma er lítill fiskur, langvaxinn, mjóvaxinn og þunnvaxinn aftan við miðju en nær sívalur að framan. Haus er frekar smár og flatur að ofan. Neðri skoltur er styttri en sá efri. Bak- og raufaruggar eru langir og samtengdir um sporð en ekki vottar fyrir sporðblöðku. Bakuggi nær fram á móts við miðja eyrugga. Eyruggar eru allstórir en kviðuggar eru smáir en greinilegir og eru framan við eyrugga eins og tveir mjóir separ. Hreistur nær frá sporði og fram á móts við framenda bakugga. Kviður er hreisturlaus, svo og haus. Rák er tvískipt, miðlæg og kviðlæg og eru báðar greinar ógreinilegar. Blettaálbrosma getur náð 29 cm lengd.

Litur: Blettaálbrosma er gulhvít á lit með fjölda brúnna bletta frá haus og aftur á sporð.

Geislar: B, +1/2; S: 124; R, +1/2 S: 110; E: 14-15; hryggjarliðir: 116-119.

Heimkynni: Tegund þessi hefur fundist við Norðaustur-Grænland (72°25'N, 17°36'V), þar sem hún fannst fyrst, við Norðvestur-

Grænland (á milli 69°30'N og 78°14'V), norðan Novaja Semlja, í norðanverðu Karahafi, við Færeyjar og á Íslandsmiðum.

Hér fannst blettaálbrosma fyrst í mars árið 1986 á 300-410 m dýpi út af Vopnafjarðargrunni (66 °20'N, 12 °30'V). Þar veiddust tvær og í maí sama ár veiddust fjórar austan Kolbeinseyjar. Síðan hefur hennar oft orðið vart á 200-800 m dýpi a svæðinu frá Dohrnbanka (einu sinni) með Norðurkanti norður fyrir Kolbeinsey austur um land til miðanna út af Suðausturlandi (Rósagarður).

Fiskar þeir sem veiðst hafa voru 10-29 cm langir.

Lífshættir: Þetta er kaldsjávar-, djúp- og botnfiskur sem veiðst hefur á 200-930 m dýpi á sand- og grjótbotni. Hann heldur sig að staðaldri í sjó kaldari en 0°C. Fæða er m.a. smáskeldýr. Um hrygningu er lítið vitað.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?