Bletta

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Gaidropsarus vulgaris
Danska: tretrådet havkvabbe
Færeyska: tríhyrnta hornabrosma, blettuta hornabroma
Norska: tretrådet tangbrosme
Enska: three-bearded rockling
Þýska: Dreibärtelige Seequappe
Franska: motelle à trois barbillons, motelle commune
Spænska: lota
Portúgalska: laibeque-de-três-barbilhos
Rússneska: Gалея / Galejá

Bletta er langvaxinn fiskur með meðalstóran ávalan haus. Á trjónu eru tveir þræðir og einn á höku. Kjaftur er allstór og ná skoltar vel aftur fyrir augu. Fremri bakuggi er mjög lágur og burstalegur. Fremsti geisli hans er örlítið lengri en aðrir geislar. Aftari bakuggi og raufaruggi eru langir, ná aftur undir sporðblöðku sem er stór og vel aðgreind frá bak- og raufarugga. Eyruggar eru stórir og ná aftur fyrir fremri rætur aftari bakugga. Kviðuggar eru framan við eyrugga og teygist annar geisli þeirra langt aftur.

Bletta getur náð 60 cm lengd en hér við land hefur hún ekki mælst lengri en 21 cm.

Litur er ljós til bleikur á kviði með brúnum blettum á haus, baki, bakugga og sporðblöðku.

Geislar: B2: 56-64; R: 46-52,- hryggjarliðir: 46-49.

Heimkynni blettu eru í vestanverðu Miðjarðarhafi og við strendur Evrópu frá Spáni og Portúgal inn í Biskajaflóa, við Bretlandseyjar og í Norðursjó til suðvestanverðs Noregs, Færeyja og Íslands.

Hér fannst bletta fyrst á 730-780 m dýpi djúpt suðvestur af Reykjanesi (62°43'N, 74°'S0'\J) í leiðangri Vestur-Þjóðverja á rannsóknaskipinu Anton Dohrn í apríl mánuði árið 1965. Sá fiskur mældist 19 cm. Það var svo ekki fyrr en í september árið 1988 að önnur bletta veiddist en það var á 450 m dýpi suðvestur af Vestmannaeyjum og í mars 1991 veiddist ein 16 cm löng á um 160-175 m dýpi á utanverðu Papagrunni við Berufjarðarál. Síðan hafa nokkrar, 14-21 cm langar, veiðst í botnvörpu á 120-190 m dýpi undan Suður- og Suðausturlandi frá Síðugrunni austur á Skrúðsgrunn. Einnig hefur bletta veiðst á rúmlega 300 m dýpi í Rósagarði undan Suðausturlandi.

Lífshættir: Bletta er botnfiskur sem veiðst hefur á 10-120 m dýpi við strendur Evrópu nema Íslands þar sem hún hefur veiðst á 120-780 m dýpi. Bletta heldur sig á leir- eða grjótbotni.

Fæða er krabbadýr, burstaormar og fiskar.

Hrygning fer fram í janúar til mars við Bretlandseyjar en í desember til janúar sunnar í álfunni.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?