Bláskata

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Rajella bigelowi
Danska: Bigelows rokke
Enska: Bigelow´s ray
Franska: raie de Bigelow
Spænska: raie de Bigelow
Rússneska: Скат синий /Skat sínij

Trjóna bláskötu er stutt og örlítið framdregin, skífa er svipuð á breidd og lengd og eru börðin bogadregin fyrir endann. Hali er mun lengri en skífa. Að ofan er bláskata nokkurn veginn slétt áferðar, þ.e. engir stórir gaddar eru til að angra þá sem handleika skötuna. Á trjónuenda eru 3-15 gaddar og ungar skötur eru með einn gadd framan við augu og annan aftan við þau. Á milli innstreymisopa eru tveir gaddar, tveir á hnakka, einn á miðjum herðum og tveir eða þrír hvorum megin á herðum. Stórar skötur eru venjulega með 5-7 gadda í röð við innri jaðar augna. Á hnakka eða herðum eru 10-18 gaddar í þríhyrndri hrúgu. Frá herðum og eftir endilöngum hala að fremri bakugga er miðlæg röð 26-33 gadda (oftast eru þeir færri en 30) og á hala eru tvær til fjórar óreglulegar, samsíða raðir allt að 30 gadda sem eru stærri en miðgaddarnir. Bakuggar eru samvaxnir. Að neðan er bláskata slétt nema smá örður eru á hala. Bláskata er með minnstu skötum, um 50-60 cm á lengd.

Litur: Bláskata er grá- eða bláleit að ofan en bak og hali eru ljósari á hálfvöxnum skötum og öskugrá eða gráhvít á fullorðnum skötum. Skífa og kviðuggar eru dökkbrún, dekkri að neðan en ofan. Hali er ljósari.

Heimkynni: Bláskata hefur fundist í norðaustanverðu Atlantshafi við Ísland, vestan Bretlandseyja, í norðanverðum Biskajaflóa, undan Marokkó, við Asóreyjar, Vestur-Sahara og Gíneu. Í Norðvestur-Atlantshafi hefur hún fundist í Davissundi undan Vestur-Grænlandi, á Stórabanka við Nýfundnaland og suður í Mexíkóflóa.

Á Íslandsmiðum veiddust tvær bláskötur, 36 cm hrygna og 37 cm hængur, í júníbyrjun árið 1992 á 1095-1100 m dýpi djúpt undan Öndverðarnesi (65°00'N, 28°23'V). Þær voru ranglega greindar sem Breviraja caerulea og getið þannig í 2. útg. bókarinnar Íslenskir fiskar 1992. Þar sem þær voru blágráar á lit fengu þær nafnið bláskata á íslensku og hefur það nafn verið látið haldast. Í júní árið 1995 veiddist 49 cm bláskötuhængur á grálúðuslóð vestan Víkuráls.

Lífshættir: Bláskata er botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 650-2200 m dýpi og oftast dýpra en 1500 m í landgrunnshöllum Norður-Atlantshafs. Um fæðu og got er ekkert vitað ennþá. Smæstu bláskötur sem veiðst hafa eru um 12 cm.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?