Áll

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Anguilla anguilla
Danska: Ål
Færeyska: Állur
Norska: Ål
Sænska: Ål
Enska: Common eel, eel
Þýska: Aal
Franska: Anguille d'Europe
Spænska: Anguila europea
Portúgalska: Enguia-europeia, enguia, anguia

Állinn er langur, mjór og jafnbola.

Haus er langur og flatur, trjóna stutt og kjaftur lítill og með smáum og hvössum tönnum. Neðri skolturinn er örlítið lengri en sá efri og kjaftvikin rétt aftan augna. Augun eru lítil og kringlótt en stækka þegar líður að hrygningartíma. Bakuggi er langur og lágur og byrjar alllangt aftan við eyrugga. Þekkist állinn m.a. frá hafálnum á því. Bakuggi nær aftur á enda stirtlunnar og sameinast þar raufarugga en ekki vottar fyrir sporðblöðku. Eyruggarnir eru smáir og bogadregnir fyrir endann en állinn hefur enga kviðugga.

Hreistrið er mjög smátt og myndast ekki fyrr en á þriðja til fjórða ári. Roð er þykkt og slímugt og slímið er eitrað og varasamt ef það kemst í opin sár. Á hinn bóginn verður það skaðlaust ef állinn er soðinn eða reyktur. Rák er greinileg, bein og óslitin. Oftast er állinn um 45-65 cm, en sá lengsti sem mældur hefur verið reyndist 133 cm. Hrygnan verður miklu stærri en hængurinn, hér hefur hún veiðst lengst um 110 cm (e.t.v. 130) en hængurinn verður hins vegar varla meira en 45—50 cm hér við land.

Litur ála er mjög breytilegur en oftast eru þeir brúnir á baki, grænleitir á hliðum og gulleitir á kviði (guláll).

Heimkynni: Állinn á heima í norð- austanverðu Atlantshafi og aðliggjandi ám í Evrópu frá Hvítahafi, Norður-Noregi og Íslandi suður til Færeyja, Bretlandseyja, í Norðursjó, Eystrasalti, inn í Miðjarðarhaf og Svartahaf og suður með vesturströnd Afríku til Senegal. Einnig er hann við Asóreyjar, Madeira og Kanaríeyjar.

Við Grænland og austurströnd Norður- Ameríku er önnur náskyld tegund, Anguilla rostrata, sem greinist m.a. frá Evrópuál í því að meðalfjöldi hryggjarliða er aðeins 107 (fjöldi: 103-110). Auk þess er nokkur erfðafræðilegur munur á milli þessara tegunda. Reyndar er ekki allir fræðingar á því að um tvær tegundir sé að ræða heldur öllu frekar tveir stofnar sömu tegundar.

Hér við land er álinn einkum að finna á svæðinu frá Lónsheiði vestur með suðurströndinni og norður til Eyjafjarðar. Samkvæmt upplýsingum frá Helga Hallgrímssyni, náttúrufræðingi á Egilsstöðum, hefur áls orðið vart á Austurlandi í og við Selfljót á Héraði en hann er þó mjög sjaldséður þar.

Töluverðar rannsóknir hafa verið gerðar á stofnerfðafræði áls sem veiðist hér á landi. Rannsóknirnar hafa sýnt að Evrópu- og Ameríkuállinn blandast að einhverju leyti á hrygningarstöðvunum. Þeir geta hrygnt saman og átt saman afkvæmi. Blendingar hafa millistigsfjölda af hryggjarliðum auk þess sem blöndunin kemur fram í arfgerð þeirra. Annað sem er sérkennilegt við stofnerfðafræði áls hér á landi er að hér finnast aðallega Evrópuálar og blendingar milli evrópsku og amerísku tegundanna en mjög fáir amerískir álar.

Lífshættir: Talið hefur verið að állinn lifi mestan aldur sinn í ósöltu vatni en rannsóknir hafa sýnt að sumir álar ali allan sinn aldur í sjó en þá á strandsvæðum.

Állinn er mjög gráðugur og étur flest er að kjafti kemur. Fæða hans er meðal annars alls konar smádýr, til dæmis ormar, sniglar, mýlirfur, smákrabbadýr, fiskaegg, seiði og fiskar. Á állinn það til að sporðrenna félögum sínum sem minni eru og því er betra fyrir hængana að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá hrygnunum um fæðuöflunartímann þar sem þær eru stærri. Állinn fer mest á stjá á nóttunni í fæðuleit en heldur meira kyrru fyrir á daginn.

Lengi var talið að eftir sex (til tíu og jafnvel 60) ára dvöl í fersku vatni færu álarnir oftast að breytast allverulega um leið og þeir yrðu kynþroska. Nýjustu rannsóknir hér á landi benda til þess að hængar verði kynþroska 5-10 ára og 30-40 cm langir en hrygnur 8-15 ára og 50-100 cm. Augu stækka, trjóna mjókkar og litur breytist. Verður állinn þá dekkri að ofan og silfurlitaðri á kviðinn (bjartáll). Magi og garnir skreppa saman og kynfæri taka að þroskast. Þessar breytingar taka um eitt ár. Í september og október fer bjartállinn að ganga til sjávar og þegar þangað kemur tekur hann stefnuna til Þanghafsins þar sem hrygningarstöðvarnar eru taldar vera. Um hegðun álsins í hafinu er nær ekkert vitað en talið er að hann haldi sig mest miðsævis.

Næringu mun állinn enga taka til sín alla þessa löngu leið (um 4000 km). Fitan verður að nægja honum til ferðarinnar sem tekur næstum heilt ár.

Talið er að álar hrygni aðeins einu sinni á ævinni og drepist að hrygningu lokinni. Eins og komið hefur fram er talið að hrygning eigi sér stað í Þanghafinu suðvestan til í Norður-Atlantshafi eða nánar tiltekið á svæði á milli 22° og 30°N og 48° og 65°V og um 100- 200 m undir yfirborði þar sem botndýpi er 5000-6000 m. Hvorki hafa fundist hrogn né nýhrygndar hrygnur en þarna hafa fundist 5 mm langar állirfur í mars til apríl á 100-300 m dýpi og eru það minnstu állirfur sem fundist hafa. Állirfurnar eru mjög ólíkar foreldrum sínum í útliti. Þær eru ílangar en blaðlaga, gegnsæjar og algerlega litlausar. Haus er mjög lítill, svo og kjafturinn sem er alsettur nálkenndum tönnum. Áður fyrr var állirfan talin vera sérstök tegund og kölluð Leptocephalus og eru þessar lirfur kallaðar því nafni en á íslensku blaðlirfur.

Árið 1958 kom fram sú kenning að evrópski állinn kæmist aldrei til hrygningarstöðvanna í Þanghafinu heldur væri það ameríski állinn sem sæi um viðhald stofnsins með hrygningu sinni. Þessari kenningu er nú almennt hafnað.

Lirfur álsins berast með Golfstraumnum til Evrópu og mun ferðin taka um eitt ár en áður var talið að hún tæki þrjú ár. Þegar lirfurnar eru komnar upp á evrópska landgrunnið eru þær 6-8 cm langar. Þá breytast þær í vatnstær seiði, glerál, styttast og fá líkt vaxtarlag og foreldrarnir. Glerálarnir fara að ganga upp í árnar á Írlandi, í Frakklandi og á Pýrenaskaga á tímabilinu frá nóvember til desember en ekki fyrr en í mars til apríl við strendur Norðursjávar og Kattegat. Hér ganga glerálarnir upp í ár á vorin og sumrin.

Við göngur upp í árnar yfirstíga álarnir alls konar hindranir sem á vegi þeirra verða, fossar stíflur og stórgrýti. Hængarnir halda ekki eins langt inn í landið og hrygnurnar. Þeir dveljast í árósum og við fjörur en hrygnurnar geta haldið langt inn í landið. Í ánum taka álarnir til óspilltra málanna við að éta og fitna og búa sig undir gönguna miklu sem oftast hefst 6-10 árum síðar eftir kynferði eins og áður var minnst á. Þegar hér er komið að sögu er állinn kallaður guláll.

Vöxtur álanna er mjög misjafn og fer eftir fæðuskilyrðum og hitastigi. Hér á Iandi er vöxturinn hægur og mun almennt vera svo í köldum og fæðulitlum ám.

Állinn hér heldur síðan á leið til hrygningarstöðvanna í október og nóvember.

Þeir álar sem ekki ná að ganga til sjávar geta náð mjög háum aldri. Sá elsti sem vitað er um varð 84 ára gamall.

Óvinir álsins í ánum eru margir. Einkum ýmsir fiskar, e.t.v. fuglar en einnig ýmis rándýr, svo sem minkur og í úthafinu eru álalirfur fiskum auðveld bráð. Þá hrjá álinn ýmsir sjúkdómar og sníkjudýr og um 1980 barst þráðormur einn, Anguillicola crassus, í evrópska álinn úr innfluttum japönskum ál

og hefur gert honum lífið Ieitt. Einnig hefur þessi þráðormur komist í ameríska álinn. Állinn er talinn vera í útrýmingarhættu vegna umhverfisáhrifa og veiða.

Nytjar: Nytsemi er mjög mikil. Víða í Evrópu er talsvert veitt af ál og einnig er stundað álaeldi með því að veiða glerála og ala upp í markaðsstærð. Ítalir og Hollendingar eru stórtækastir í því eldi. Í nokkrum Asíulöndum (Kína, Taívan, Kóreu, Malasíu) er kyrrahafsáll, Ancjuilla japonica, ræktaður í stórum stíl en minna er um veiðar á villtum ál. Hér hefur lítið verið gert af því að veiða ál - helst er það á Suðausturlandi. Um 1960 var reynt að nýta ál hér meira en áður en það stóð ekki lengi. Árið 1961 veiddu Íslendingar 15 tonn af ál og var hann fluttur lifandi á markað í Hollandi. Árið eftir komst aflinn í 22 tonn og var þá farið að reykja hann en eftir það fór að draga úr afla og meðallengd þess áls sem veiddist minnkaði. Veiðar voru einkum stundaðar á haustin í gildrur og reynt að ná í ál sem var á leið úr ánum (bjartál, sjógönguál) á hrygningarstöðvarnar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?