Ægisangi

Samheiti á íslensku:
ægisangi
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Searsia koefoedi
Danska: Koefoeds skulderlysfisk
Færeyska: høvuðlítli angarfiskur
Enska: Koefoed's searsid
Þýska: Silberbeil
 

Ægisangi er smár fiskur, þunnvaxinn og með lítinn haus. Skoltar eru stuttir, ná ekki aftur fyrir augu og trjónan er einnig stutt. Augu eru hins vegar stór. Bak- og raufaruggi eru svipaðir að stærð og andspænis hvor öðrum - bakuggi þó aðeins framar. Eyr- og kviðuggar eru litlir, sporður djúpsýldur og hreistrið smátt.

Hann hefur eftirfarandi ljósfæri: Spyrðuljós, aðgreind en þéttstæð hvort sínum megin kjalar. Þau eru orðin greinileg á fiskum sem hafa náð 4,5 cm stærð. Einnig er raufaruggaljós og miðkviðarljós á fiskum sem náð hafa 4,5 cm lengd. Miðkviðarljósið liggur eins og þverstrik rétt undir ofankviðarljósi og rétt framan við rætur kviðugga. Miðljós, ofanraufarljós og brjóstljós eru einnig en ýmist er tálknaloksljós eða ekki. Ægisangi verður um 28 cm langur. Litur er grábrúnn. Geislar: B: 18-22,- R: 17-19.

Heimkynni ægisanga eru í öllum heimshöfum. Í Norðaustur-Atlantshafi er hann frá Grænlandshafi og Íslandsmiðum suður til Írlands og Biskajaflóa og allt suður til 3°N. í Norðvestur-Atlantshafi hefur hans orðið vart við Grænland og hann er við Bermúda- og Bahamaeyjar. Einnig verður hans vart í Mið-Atlantshafi, Indlandshafi og Kyrrahafi.

Hér fannst ægisangi fyrst í Rósagarðinum djúpt undan Suðausturlandi en hann hefur einnig veiðst suður af Selvogsbankatá, í utanverðu Háfadjúpi á 530—600 m dýpi (1995), suðvestur af Eldey og sunnan Vestmannaeyja (1995 og 1997), á 420 m dýpi í Faxadjúpi (63°17'N, 25°28'V) (1995), á Reykjaneshrygg (1998 og 1999) en þar veiddust fjórir sem voru 13-28 cm langir (61°30'N, 27°30'V). Ægisangi veiðist alloft djúpt suðvestur og suður af Reykjanesi.

Lífshættir: Ægisangi er miðsævis-, djúp- og úthafsfiskur sem veiðst hefur á 420—1500 m dýpi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?