Nýútkomin skýrsla í Haf- og vatnarannsóknum: Rannsóknir á hrygningargöngu loðnu með smábátum

Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir

Aflað var upplýsinga um magn, ástand og framvindu hrygningar loðnu fyrir norðan Ísland að sumarlagi 2021. Megin hrygning loðnu við Ísland fer fram við suður- og vesturströndina í mars-apríl en vitað var að í gegnum tíðina hefur loðna hrygnt fyrir norðan land fram eftir sumri þó upplýsingar hafi vantað um útbreiðslu og umfang.

Smábatar voru notaðir við bergmálsmælingar, sýnatöku og myndatöku en jafnframt var um að ræða tilraunaverkefni í þeirri aðferðafræði. Farið var í fjóra leiðangra á tveimur smábátum í Eyjafjörð, Skjálfandaflóa, Axarfjörð og Þistilfjörð í maí og júní 2021. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið styrkti verkefnið sem hluta fjárfestingaátaks Alþingis vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Lífmassi kynþroska loðnu mældist samtals 505 tonn í bergmálsmælingunum. Því má ætla að ekki hafi mikið magn loðnu gengið til hrygningar á viðkomandi svæðum fyrir norðan land á þeim tíma sem rannsóknin fór fram. Einhver hrygning átti sér stað fyrir norðan land að minnsta kosti fram í júní en um var að ræða mjög lítið magn ef miðað er við stærð hrygningarstofns loðnu við Ísland og má því ætla að um óverulegt framlag til heildarstofnsins hafi verið að ræða. Vísbendingar eru um að loðnugengd á umræddum svæðum hafi hugsanlega verið meiri undanfarin ár. Sýnt var fram á að hægt er að nota smábáta með réttan búnað í slíkar rannsóknir en skoða þarf göngur og hrygningu loðnu með þessum hætti í nokkur ár til að meta breytileika í göngum og skilja í samhengi við t.d. ástandið í hafinu.

Höfundur skýrslu er Birkir Bárðarson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.

Smelltu á hlekk til að opna skýrslu


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?