Hlutverk svipgerða við innrás ágengra fisktegunda

Hlutverk svipgerða við innrás ágengra fisktegunda

Round goby (Neogobius melanostomus) er ágeng fisktegund sem er upprunnin í Svartahafi og Kaspíahafi. Í kringum 1990 tók hún að ferðast með kjölvatni skipa og fannst það ár syðst í Eystrasaltinu og í Norður Ameríku. Síðan þá hefur hún dreift sér um mikinn hluta áa og vatna á meginlandi Evrópu og Norður Ameríku. Þar veldur hún usla, meðal annars með því að fjölga sér hratt og éta egg og seiði annarra fisktegunda ásamt því að éta krækling og aðrar tegundir sem sía vatnið með þeim afleiðingum að vatn sem áður var tært verður gruggugt.

Í nýlegri grein sem starfsmaður Hafrannsóknastofnunar, Magnús Thorlacius, birti í tímaritinu Limnology and Oceanography voru kynnt gögn sem varpa ljósi á hlutverk svipgerða við dreifingu þessarar ágengu fisktegundar eftir innrás á framandi stað.

Tvö svæði í Eystrasaltinu urðu fyrir valinu þar sem tegundin hafði numið land 2010 (Visby í Svíþjóð) og 2011 (Mariehamn á Álandseyjum). Veitt var í álagildrur með stöðluðum hætti tvisvar til þrisvar á sumri árin 2013 og 2014 þar sem allir round goby voru merktir (~1500 stk.) að frátöldum 69 fiskum sem fluttir voru lifandi til Umeå til atferlistilrauna.

Afli á sóknareiningu reyndist svipaður yfir bæði árin í höfnunum á meðan mikillar aukningar varð vart á milli ára á svæðunum þar í kring. Þetta gefur til kynna að 3-5 ár líði frá því að þessi tegund nemur land þar til hún fer að dreifa sér í auknu mæli til nærliggjandi svæða. Einnig kom í ljós að einstaklingar sem velja að vera út af fyrir sig frekar en í hópum finnast í meira mæli á nýjum svæðum heldur en gömlum. Sýnt hefur verið fram á að svona hegðunarmynstur er hluti af svipgerð einstaklingsins (breytist ekki með tímanum) og sé arfgeng. Því er talið að þessi hegðun verði ýktari eftir því sem tegundin hefur ferðast lengra, þar sem einstaklingar sem bera þessa svipgerð virðast dreifa sér á undan þeim sem bera hana ekki, og eignast því í auknu mæli afkvæmi með sambærilegum einstaklingum. Tegundin fjölgar sér hratt á nýjum svæðum og með auknu hlutfalli af einstaklingum sem eru viðkvæmir fyrir háum þéttleika má áætla að tíminn sem líður frá innrás og þar til stofninn heldur áfram að dreifa sér styttist eftir því sem tegundin ferðast lengra.

Greinin er aðgengileg á vef Limnology and Oceanography.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?