Lýsing |
Metveiði var í Norðurá árið 2013 og margfaldaðist frá árinu 2012, sem var mjög slæmt veiðiár. Alls veiddust 3.505 laxar í Norðurá og var 1.040 löxum sleppt eða tæplega 30% veiðinnar. Hlutfall stórlaxa í veiðinni var 6,7% eða 234. Hlutdeild stórlaxa rakin til gönguseiðaárgangs 2011 var rúm 24%. Hlutdeild sleppinga á stórlaxi var tæp 90%, og hefur aldrei verið meiri, og rúm 25% á smálaxi. Smálaxar vógu að meðaltali 2,5 kg en stórlaxar 4,7 kg. Mesta laxveiðin var á veiðistað nr. 39 (Breiðan) en þar veiddust 355 laxar eða 10% veiðinnar. Mesta veiðin í einni viku var frá 9.-15. júlí en þá veiddust 635 laxar. Auk laxveiðinnar var 31 urriði og tvær bleikjur færðar til bókar. Nettóganga upp fyrir teljarann í Glanna í Norðurá var 221 stórlax, 2.315 smálaxar og 191 silungur. Mest var laxagangan í júlí en þá gekk rúm 70% stórlaxa og rúm 84% smálaxa. Samanlögð ganga laxa upp fyrir teljarann í Glanna var rétt undir meðalgöngu tímabilsins 2002-2013. Veiðihlutfall ofan Glanna mældist með mesta móti frá árinu 2002 eða rétt tæplega 50% og reyndist nánast jafnt hjá smálaxi og stórlaxi. Rannsökuð voru 112 hreistursýni úr laxveiðinni í Norðurá 2013. Meðalaldur við útgöngu var 3,27 ár og hafði smálaxinn vaxið um 34,4 cm að meðaltali eftir ársvöxt í sjó. Rúm 64% laxveiðinnar mátti rekja til klakárgangs 2009 og rúm 30% til árgangs 2008. Í rafveiðum í Norðurá í Borgarfirði 2013 veiddust 1.213 laxaseiði af fjórum árgöngum, 6 bleikjuseiði af tveimur árgöngum, 78 urriðaseiði af fjórum árgöngum og 1 flundra. Vísitala þéttleika laxaseiða í rafveiðunum 2013 (stöðvar 4-16) var að meðaltali 52,6/100 m2 og hafði hækkað um tæpa 9/100 m2 á milli ára en þéttleiki 0+ seiða minnkaði hins vegar á milli ára, úr 22,2 í 14,4/100 m2. Vöxtur laxaseiða af öllum árgöngum mældist minni árið 2013 en árið 2012. Lífþyngd laxaseiða í Norðurá árið 2013 mældist tæp 183 g/100 m2. Holdastuðull allra árganga laxaseiða árið 2013 er yfir 1,00 en hefur farið minnkandi frá 1997. Marktækt samband er milli breytileika á þéttleika laxaseiða af árgöngum 1+ (r2=0,387 P=0,0076) og 2+ (r2=0,264 P=0,035) og þyngdarstuðuls. Kröftugir seiðaárgangar verða uppistaða hrygningargöngunnar í Norðurá 2014 og ef ekki koma til erfið vaxtaskilyrði í hafi má búast við öflugri laxgengd á komandi veiðisumri. |