Vöktunarrannsóknir á laxfiskum í Miðá í Dölum. HV 2021-42

Nánari upplýsingar
Titill Vöktunarrannsóknir á laxfiskum í Miðá í Dölum. HV 2021-42
Lýsing

Í Miðá og Tunguá 2020 veiddust 102 laxar og 207 bleikjur og skiptist laxveiðin í 79 smálaxa og 23 stórlaxa. Alls var 11 löxum sleppt en 6 bleikjum. Hlutdeild sleppinga á stórlaxi var 39,1% en 2,5% á smálaxi. Laxveiðin á vatnasvæði Miðár árið 2020 var 56,0% af meðalveiði áranna 1974 – 2020 en einungis 37,8% af meðalveiði síðustu 20 ára (270). Bleikjuveiðin nam 63,3% af meðalveiði áranna 1974 – 2020 en var 76,4% af meðalveiði síðustu 20 ára. Áætluð meðalþyngd smálaxa var 2,37 kg og áætluð meðallengd þeirra var 60,0 cm. Áætluð meðalþyngd stórlaxa var 4,51 kg og áætluð meðallengd þeirra var 74,9 cm. Áætluð meðalþyngd bleikja úr stangveiðinni var 0,99 kg og áætluð meðallengd þeirra var 42,8 cm.

Bleikjan veiddist einkum frá því um miðjan júlí þar til vika var af ágúst en laxveiðin dreifðist mun jafnar yfir veiðitímann. Heildarfjöldi hrogna var metinn 204.933 hrogn eða 0,42 hrogn á hvern fermetra botnflatar og var hrognafjöldinn einungis 41% af áætluðum meðaltalshrognafjölda í ánni frá 1974 – 2020 (499.659 hrogn). Samanlögð þéttleikavísitala laxaseiða í rafveiðum á vatnasvæði Miðár 2020 var 21,1 seiði á 100 m2 botnflatar árinnar og er 64,9% af langtímameðaltali seiðavöktunar í ánni. Hreistursýnum var safnað af um 15% laxveiðinnar. Ferskvatnsaldur laxanna var á bilinu þrjú til fimm ár og var stærstur hlutinn eða 73,3% með þriggja ára ferskvatnsdvöl en 20,0% með fjögurra ára ferskvatnsdvöl. Rekja mátti laxveiðina til fjögurra klakáranga (2013, 2014, 2015 og 2016) en stærstan hluta veiðinnar (55,9%) til klaks ársins 2016 og 28,4% til klaks ársins 2015. Veruleg lægð kom fram í laxveiðinni í Miðá sem m.a. er rakin til slaks klakárgangs frá 2015, sem einkum skilaði sér árin 2019 og 2020. Ennfremur er talið að langvinnir þurrkar sumarið 2019 hafi valdið afföllum á gönguseiðum sem fóru til sjávar sumarið 2019 auk þess sem samdráttur farvega og uppþurrkun svæða olli líklega afföllum á yngri árgöngum. Þetta gæti leitt til minni endurheimtna í Miðá árin 2023 – 2026 er viðkomandi árgangar taka að skila sér í ána.

 

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Haf- og vatnarannsóknir (2016-)
Útgáfurit Haf- og vatnarannsóknir
Útgáfuár 2021
Blaðsíður 19
Útgefandi Hafrannsóknastofnun
Leitarorð Lax, bleikja, stangaveiði, hrygning, seiðaþéttleiki, hreisturrannsóknir
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?