Lýsing |
Ágrip
Alls veiddust 756 laxar á stöng í Laxá í Dölum 2022 sem skiptist í 626 smálaxa og 130 stórlaxa. Auk lax veiddist 26 urriðar og 8 bleikjur. Alls var 77,8% laxveiðinnar sleppt í Laxá þar af 92,3% stórlaxaveiðinnar og 74,8% smálaxaveiðinnar. Eins árs lax úr sjó var uppistaða veiðinnar (82,8%) og tveggja ára laxar því 17,2% veiðinnar. Hrygnur voru 33% smálaxaveiðinnar en 59,7% stórlaxaveiðinnar. Smálaxar vógu að meðaltali 2,51 kg en stórlaxar 5,25 kg. Langtíma meðalveiði í Laxá 1974 − 2021 er 1.014 laxar og var laxveiðin 2022 um 25% undir langtíma meðalveiði. Undanfarin ár hefur mikil breyting átt sér stað á veiðistjórnun í Laxá, en eingöngu er nú veitt á flugu og frá 2015 hefur um og yfir 70% veiðinnar verið sleppt, þar af nær öllum stórlaxi. Fiskvegur við Sólheimafoss var tekinn í notkun sumarið 2019 og hefur lax gengið upp fyrir fossinn frá þeim tíma. Fiskteljari hefur verið notaður til að fylgjast með laxagöngum árin 2020 – 2022. Árið 2022 gengu 76 laxar upp fyrir teljarann sem skiptist í 66 smálaxa og 10 stórlaxa. Þá voru skráðir 25 silungar sem gengu upp fyrir teljarann. Hrygningarstofn Laxár var áætlaður 272 smálaxahrygnur og 75 stórlaxahrygnur og hrygningin áætluð 2,5 milljónir hrogna eða 4,1 hrogn/m2 sem er um 17% undir meðaltali langtíma hrygningar í laxá (4,9 hrogn/m2). Áætlað er að 22 smálaxahrygnur og 6 stórlaxahrygnur hafi tekið þátt í hrygningu ofan Sólheimafoss haustið 2022. Hrognafjöldi haustið 2022 ofan Sólheimafoss er áætlaður um 200.000 hrogn eða 2,0 hrogn/m2 á tiltæku búsvæði ofan við Sólheimafoss.
Seiðavísitala laxa í Laxá neðan Sólheimafoss mældist samanlagt 52,7 seiði/100 m2 þar af var þéttleiki 0+ laxaseiða 17,0 seiði/100 m2, rétt yfir langtíma meðaltali en vísitala 1+ seiða 20,3 seiði/100 m2, nálægt langtíma meðaltali. Vísitala tveggja ára seiða mældist 12,7 seiði/100 m2, nokkuð yfir langtíma meðaltali og þriggja ára seiða 2,3 seiði/100 m2. Fyrir ofan Sólheimafoss mældist samanlagður þéttleiki 18,0/100 m2 þar af var þéttleiki sumargamalla laxaseiða 2,2 seiði/100 m2, eins árs seiða 13,1 seiði/100 m2 og tveggja ára seiða 2,4 seiði/100 m2 auk þess sem vart varð við 3+ seiði. Seiðin á fyrsta, öðru og þriðja ári eru ættuð úr náttúrulegri hrygningu laxa ofan Sólheimafoss eftir að fiskvegur var byggður við fossinn sumarið 2019 og vorið 2023 ganga fyrstu seiðin til sjávar af svæðinu ofan Sólheimafoss úr náttúrulegri hrygningu laxa sem gengur nýja fiskveginn. Rannsóknir á hreistursýnum leiddu í ljós að klakárgangarnir frá 2017 (54,3%) og 2018 (40,0%) voru uppistaða sýnanna. Enginn lax með uppruna úr eldi kom fram í sýnunum.
Lagt er til veitt verði meira vatni á fiskveginn við Sólheimafoss, en hann virkar ekki þegar vatn er lítið í ánni, en slíkt er mikilvægt ef nýta á svæðið til veiða í samræmi við aukið landnám og aukna framleiðslugetu. Einnig er lagt til að botngerðarmat verði gert á búsvæðum ofan Sólheimafoss og kannaðar hindranir í Skeggjagili sem kunna að hindra göngur inn að Hvítfossi sem er talinn ófiskgengur. |