Vöktun laxastofna á vatnasvæði Norðurár í Borgarfirði 2023, HV 2024-14

Nánari upplýsingar
Titill Vöktun laxastofna á vatnasvæði Norðurár í Borgarfirði 2023, HV 2024-14
Lýsing

Laxveiðin í Norðurá var 37,0% undir langtímameðaltali, hlutfall stórlaxa var 19,3% og hlutfall veiða og sleppa var 72,8%. Hrygnuhlutfall smálaxa var 22,5% en stórlaxa 49,3%.

Laxaganga upp fyrir teljarann í Glanna var lítillega undir meðaltali 2002 – 2022 en silungagangan var tvöfalt meðaltalið. Veiðihlutfall á laxi ofan Glanna var 14,9%, það lægsta frá því fisktalning hófst í Norðurá.

Hrognafjöldi var metinn 4,04 milljónir hrogna (2,38 hrogn/m2) og hlutfall stórlaxahrogna var 46,0%. Hrognaþéttleikinn var lítillega undir aðgerðarmörkum (2,43 hrogn/m2).

Seiðavísitala 0+ seiða á viðmiðunarstöðvum var 45,0% yfir meðaltali og seiðavísitala 1+ seiða var 42,0% yfir meðaltali.

Gönguseiðasleppingar í Norðurá 2022 skiluðu 0,54% endurheimtum í smálaxagöngunni 2023. Ástæða er til að endurmeta þessa fiskrækt í ljósi niðurstaðna. Stærstur hluti laxveiðinnar kom úr náttúrulegu klaki árinnar, að mestu leyti úr klaki áranna 2018 og 2019.

Óvissa er um hlutfallslega skiptingu laxa og silungs í fiskteljara þar sem engin myndavél er til staðar og sjóbirtingur virðist vera í sókn á Vesturlandi. Æskilegt væri að fá betra mat á skiptingunni.

Lágt hlutfall smálaxahrygna síðustu 2 ár vekur upp spurningar um áreiðanleika kyngreiningar, breytingar á sjávarumhverfi eða erfðasamsetningu laxastofnsins. Ástæða er til að gera úttekt á kyngreiningum meðal veiðimanna.

Veiðistjórnun með áherslu á veiða og sleppa hefur minnkað áhrif slakra sjávarskilyrða á hrygningarstofn Norðurárlaxins og viðhaldið seiðaþéttleika í ánni. Út frá núverandi ástandi er ráðlagt að því verði framhaldið.

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Haf- og vatnarannsóknir (2016-)
Útgáfurit Haf- og vatnarannsóknir
Útgáfuár 2024
Tölublað 14
Blaðsíður 29
Útgefandi Hafrannsóknastofnun
ISSN 2298-9137
Leitarorð stangveiði, lax, urriði, Glanni, hrognamagn, hrygningarmarkmið, seiðavísitala, veiða og sleppa, fiskrækt, gönguseiði, endurheimtur, fisktalning
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?