Rannsóknir á laxfiskastofnum í Gljúfurá í Borgarfirði 2022. HV 2023-16

Nánari upplýsingar
Titill Rannsóknir á laxfiskastofnum í Gljúfurá í Borgarfirði 2022. HV 2023-16
Lýsing

Í stangveiðinni í Gljúfurá í Borgarfirði veiddust 246 laxar (98,0% smálaxar og 2,0% stórlaxar), 53 urriðar og ein bleikja. Hlutfall veiða og sleppa hjá laxi var 4,9% og hjá urriða 5,7%. Laxveiðin í Gljúfurá árið 2022 var 13,5% yfir langtímameðaltali (1984 – 2021) og urriðaveiðin var 122,2% yfir langtímameðaltali (1987 – 2021). Nettó fjöldi fiska sem gekk upp fyrir teljarann í Gljúfurá var 90 silungar, 814 smálaxar og 156 stórlaxar. Mesta ganga silunga var í ágúst og september (84,4%), ganga smálaxa var mest í júlí (34,8%) en einnig töluverð í ágúst (27,5%) og september (22,1%) og tæplega helmingur stórlaxa gekk í september (48,1%). Veiðihlutfall á laxi í Gljúfurá árið 2022 var 25,2% en meðaltals veiðihlutfall á tímabilinu 2010 – 2021 var 38,6%. Fjöldi hrogna í Gljúfurá haustið 2022 var 1,52 milljónir sem er 33,9% meiri hrognafjöldi en langtímameðaltalið (1975 – 2021; 1,14 millj.) og var hlutfall stórlaxahrogna 8,8%. Fjöldi hrogna á hvern m2 af botnfleti árinnar var 4,68 sem er 33,6% yfir hrygningarmarkmiði í ánni. Hreistur var rannsakað af 12 löxum eða 4,9% laxveiðinnar. Vísitala sumargamalla laxaseiða í Gljúfurá var 55,6% yfir langtímameðaltali (1995 – 2021) seiðaþéttleika (23,2/100 m2) og 20% yfir þéttleikamarkmiðum (30/100 m2). Vísitala veturgamalla seiða (1+) var 18,1% undir langtímameðaltali seiðaþéttleika (18,2/100 m2) og 40,4% undir þéttleikamarkmiði (25/100 m2). Tveggja vetra seiði (2+) voru jöfn langtímameðaltalinu. Vísitala sumargamalla urriðaseiða var um áttfalt langtímameðaltalið (2,1/100 m2) og hefur nýliðun þeirra, með nokkrum undantekningum, farið vaxandi frá árinu 2013. Vísitala veturgamalla(1+) urriðaseiða var 37,5% hærri en langtímameðaltalið (0,8/100 m2) en um fá seiði var að ræða. Laxastofninn í Gljúfurá virðist þola vel þá veiðinýtingu sem er í ánni.

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Haf- og vatnarannsóknir (2016-)
Útgáfurit Haf- og vatnarannsóknir
Útgáfuár 2023
Blaðsíður 18
Útgefandi Hafrannsóknastofnun
Leitarorð lax, urriði, sjóbirtingur, fisktalning, seiðavísitala, hrygningarmarkmið, viðmiðunarmörk, tegundagreining, skuggamyndir
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?