Ágrip
Laxastofninn í Laxá í Dölum er árlega vaktaður til að auka þekkingu um lífssögulega þætti í stofninum og umhverfi hans auk þess sem ráðgjöf er veitt um stöðu laxastofnsins hverju sinni.
Stangaveiðin í Laxá í Dölum árið 2024 var alls 1.365 laxar og skiptist veiði í 1.185 smálaxa og 180 stórlaxa, en auk þess veiddust 23 urriðar og 8 bleikjur. Stærstum hluta laxveiðinnar var sleppt (81,6%), þ.e. 88,3% stórlaxaveiðinnar og 80,6% smálaxaveiðinnar. Meðalveiði í Laxá frá 1974 − 2024 er 1.009 laxar á ári og laxveiðin árið 2024 var 35% yfir meðalveiðinni.
Fiskteljari í fiskvegi við Sólheimafoss sýndi að 32 laxar gengu upp fyrir teljarann þar af 26 smálaxar og 6 stórlaxar. Árin 2020 til 2024 hefur hrognafjöldi laxa ofan Sólheimafoss verið áætluð um 137.000 hrogn að meðaltali sem svarar til 1,4 hrogn/m2. Göngur laxa um Sólheimafoss voru meiri árin 2020 til 2022, en nokkuð hefur dregið úr þeim árin 2023 og 2024 sem hefur leitt til minni hrygningar.
Seiðarannsóknir fóru fram á sex stöðum í Laxá og hliðarám neðan Sólheimafoss og þremur stöðum í Laxá ofan Sólheimafoss og Skeggjagili. Í Laxá neðan Sólheimafoss mældist seiðavísitalan að meðaltali 58,6 seiði/100 m2. Alls komu fram fimm árgangar í rafveiði frá sumargömlum seiðum (0+) til seiða á fimmta ári (4+). Seiðavísitalan reyndist hæst við Sámsstaði og í Þrándargili. Allir árgangar nema seiði á fjórða ári mældust um eða yfir langtíma meðaltali. Á svæðinu fyrir ofan Sólheimafoss var mælt á þremur stöðum og fundust fjórir árgangar laxaseiða. Samanlögð seiðavísitala mældist 15,7 seiði/100 m2. Mest var af seiðum á öðru ári en næst komu seiði á fyrsta ári.
Hafrannsóknastofnun telur að veiðistjórnun í Laxá sé í góðu horfi en 70 - 80 % veiðinnar hefur verið sleppt frá árinu 2014. Frávik frá viðmiðunarmörkum hrygningar og seiðaþéttleika virðast frekar tengjast umhverfissveiflum en veiðistjórnun. Lagt er til að vöktunarrannsóknir verði gerðar með svipuðum hætti og undanfarin ár (vatnshitamælingar, seiðarannsóknir, hreisturrannsóknir, fisktalning). Einnig er mælt með endurbótum á fiskveginum við Sólheimafoss þannig að meira vatn renni um fiskveginn, en við núverandi aðstæður gengur lax aðeins í miklu vatni. Einnig er lagt til að búsvæði í Laxá frá Sólheimafossi að Laxárvatni og búsvæði Skeggjagils að Hvítfossi verði kortlögð sem fyrst þannig að framleiðslugeta svæðisins sé þekkt. |