Laxá í Dölum 2023 Vöktun á stofnum laxfiska

Nánari upplýsingar
Titill Laxá í Dölum 2023 Vöktun á stofnum laxfiska
Lýsing

Ágrip

Í skýrslunni er greint frá vöktunarrannsóknum á vatnasvæði Laxár í Dölum árið 2023. Markmið þeirra er að afla þekkingar um stöðu laxastofns Laxár og rannsaka útbreiðslu og magn laxfiska á vatnasvæðinu og veita ráðgjöf um stöðu laxastofnsins hverju sinni.

Stangaveiðin í Laxá í Dölum árið 2023 var alls 642 laxar og skiptist veiði í 457 smálaxa og 185 stórlaxa, en auk þess veiddust 31 hnúðlaxar og einn áll. Stærstum hluta laxveiðinnar var sleppt (79,4%), þ.e. 96,2% stórlaxaveiðinnar og 72,6% smálaxaveiðinnar. Meðalveiði í Laxá frá 1974 − 2023 er 1.002 laxar á ári og var laxveiðin 2023 um 74% af meðalveiðinni.

Seiðaransóknir fóru fram á sex stöðum í Laxá og hliðarám neðan Sólheimafoss og tveimur stöðum í Laxá ofan Sólheimafoss og Skeggjagili, en Sólheimafoss hefur verið fiskgengur frá 2019 eftir fiskvegagerð. Alls veiddust fjórir árgangar laxaseiða (0+ - 3+). Samanlögð seiðavísitala allra aldurshópa neðan Sólheimafoss mældist að meðaltali 67,5 seiði/100 m2 . Seiðavísitalan reyndist hæst í Þrándargili, 124/100 m2), Hólmavatnsá (86,3/100 m2) en einnig mældist há vísitala á stöð neðan við Sólheimafoss (78,1 seiði/100 m2) . Allir árgangar seiða mældust um og yfir langtíma meðaltali. Á svæðinu fyrir ofan Sólheimafoss var mælt á tveimur stöðum og fundust fjórir árgangar laxaseiða sem voru laxaseiði úr náttúrulegu klaki. Samanlögð seiðavísitala mældist 44 seiði/100 m2. Mest var af seiðum á fyrsta ári en einnig mældist gott magn af seiðum á þriðja ári, en fremur lítið af seiðum á öðru ári.

Í Laxá í Dölum komu fram 13 meintir eldislaxar í stangaveiði haustið 2023 og hefur erfðagreining á sýnum úr löxunum staðfest að uppruni þeirra allra er úr kvíaþyrpingu fyrirtækisins Arctic Fish í Kvígindisdal í Patreksfirði.

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Haf- og vatnarannsóknir (2016-)
Útgáfurit Haf- og vatnarannsóknir
Útgáfuár 2024
Tölublað 40
Blaðsíður 19
Útgefandi Hafrannsóknastofnun
ISSN 2298-9137
Leitarorð Laxá í Dölum, lax, urriði, bleikja, stangaveiði, hrognafjöldi, seiðaþéttleiki, fiskirækt
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?