Hítará á Mýrum Breytingar á veiði í kjölfar berghlaups og seiðaástand 2022

Nánari upplýsingar
Titill Hítará á Mýrum Breytingar á veiði í kjölfar berghlaups og seiðaástand 2022
Lýsing

Ágrip

Vatnasvæði Hítarár á Mýrum er með fjölbreyttari vatnakerfum landsins. Umhverfi vatnasvæðisins,
farleiðir laxfiska og uppeldisskilyrði fyrir seiði breyttust umtalsvert eftir að stórt berghlaup (Skriðan)
féll úr Fagraskógarfjalli vestan Hítarár þann 7. júlí 2018. Farvegur Hítarár breyttist þannig að hún fellur
ofarlega í fyrrum hliðaránna Tálma og um 6 km af farvegi Hítarár lenti undir berghlaupinu eða þornaði
upp neðan þess. Nýtt vatn, Bakkavatn, myndaðist ofan við Skriðuna.

Töluverðar breytingar hafa orðið á veiði eftir svæðum innan vatnasvæðisins eftir berghlaupið og
breytingar á veiðireglum, þar sem maðkaveiði var bönnuð. Lítil veiði er ofan við Skriðu og er nýr
farvegur Hítarár frá Bakkavatni að Tálma líklega illa gengur göngufiski. Í seiðamælingum fundust
laxaseiði ofan við Skriðu í litlum þéttleika en ekki liggur fyrir hvort að þau eigi uppruna sinn vegna
náttúrlegrar göngu laxa á svæðið og hrygningar þar eða vegna fiskræktaraðgerða, en umfang þeirra
liggur ekki fyrir.

Veiði hefur aukist í Tálma og efri hluti árinnar virðist henta laxaseiðum betur eftir berghlaupið. Veiði í
hliðaránni Grjótá hefur minnkað hlutfallslega en líklega skýrist það af breyttum veiðireglum þar sem
Grjótá varð ekki fyrir breyttum rennslisháttum.

Veiðiálag virðist hafa aukist á bleikju í efri hluta Tálma. Lítið er vitað um þann stofn og bleikja á víða
undir högg að sækja á Íslandi. Því er lagt til að allri bleikju á vatnasvæðinu verði sleppt í stangveiðinni.
Þar sem nýr farvegur Hítarár ofan Tálma virðist torgengur laxi er lagt er til að veiðifélagið nýti svæði
ofan við Skriðu til framleiðslu laxaseiða, annaðhvort með því að gera fiskgengt upp á svæðið eða með
fiskræktaraðgerðum.

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Haf- og vatnarannsóknir (2016-)
Útgáfurit Haf- og vatnarannsóknir
Útgáfuár 2024
Tölublað 30
Blaðsíður 39
Útgefandi Hafrannsóknastofnun
ISSN 2298-9137
Leitarorð Stangveiði, veiðireglur, fluguveiði, lax, urriði, bleikja, berghlaup, seiðavísitala, gönguhindrun
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?