Lýsing |
Alls veiddust 703 laxar á vatnasvæði Grímsár 2023, þar af 41 lax í hliðaránni Tunguá. Auk lax veiddust 217 urriðar, 2 bleikjur og 3 hnúðlaxar. Alls var 68,8% laxa sleppt aftur eftir veiði í Grímsá og Tunguá, þar af 63,4% smálaxa og 100% stórlaxa. Langtíma meðalveiði í Grímsá og Tunguá 1974 − 2022 er 1.272 laxar og var laxveiðin 2023 einungis 55% af meðalveiði. Hrognafjöldi Grímsár og Tunguár árið 2023 var áætlaður 2,1 milljónir hrogna (1,2 hrogn/m2) en hrognafjöldi Grímsár hefur sveiflast frá 0,9 − 4,7 hrogn/m2 á tímabilinu 1974 – 2022 og er að meðaltali 2,3 hrogn/m2 (3.9 millj. hrogna).
Seiðavísitala laxa í Grímsá mældist samanlagt 62,8 seiði/100 m2 en seiðavísitala urriða 22,4 seiði/100 m2. Vísitala 0+ laxaseiða mældist 33,0 seiði/100 m2, nokkuð yfir langtíma meðaltali en vísitala 1+ seiða 22,8 seiði/100 m2, rétt undir langtíma meðaltali. Nýliðun hefur nokkuð minnkað undanfarin ár en hrygningarstofn laxa hefur minnkað í vatnakerfinu í samræmi við minnkandi veiði. Sleppingar í veiðinni (veiða og sleppa) eru mjög mikilvægar til að styrkja hrygningarstofninn auk þess sem þær draga úr sveiflum af minnkandi laxgengd. Laxaflutningar og hrognagröftur á ófiskgeng svæði Tunguár skiluðu allgóðum árangri sbr. mælingar haustið 2023. Þessi starfsemi hefur borið töluverðan árangur til að auka við framleiðslusvæði laxa, en nýtir þó aðeins lítinn hluta framleiðslugetu á ófiskgenga hluta Tunguár. |