Fiskirannsóknir á vatnasvæði Flekkudalsár 2022. HV 2023-18

Nánari upplýsingar
Titill Fiskirannsóknir á vatnasvæði Flekkudalsár 2022. HV 2023-18
Lýsing

Á vatnasvæði Flekkudalsár veiddust 112 laxar, fimm bleikjur og 21 urriði. Laxveiðin var að stærstum hluta smálax (95,5%) og þar af voru hængar í meirihluta (64,7%) en stórlaxarnir sem allir voru hrygnur voru fimm talsins (4,5%). Meðalþyngd smálaxa var 2,26 kg en stórlaxahrygnurnar vógu 4,4 kg að meðaltali. Laxveiðin á vatnasvæði Flekkudalsár árið 2022 var 37,8% undir meðalveiði tímabilisins 1984 − 2021. Hlutfall veiða og sleppa af heildarlaxveiðinni á vatnasvæði Flekkudalsár árið 2022 var 26,8% sem er 12,7% undir meðaltali áranna 2015 – 2022. Hreistursýni voru rannsökuð af 23 löxum sem er 20,5% laxveiðinnar, þar af var 21 sýni af smálaxi en tvö sýni af löxum á endurtekinni hrygningargöngu. Ferskvatnsaldur laxa úr sýnatökunni var á bilinu tvö til fjögur ár, að meðaltali 3,5 ár. Hreistursýnin voru rakin til þriggja klakárganga (2017 – 2019) en að stærstum hluta til klaks ársins 2017 (56,5%) og þar næst til klaks ársins 2018 (39,1%). Urriðinn (sjóbirtingurinn) dvaldi fjögur ár í ánni á seiðastigi en gekk eftir það fimm sumur í röð til sjávar í fæðuleit og snéri hvert haust aftur upp í ána til hrygningar. Í seiðamælingum á vatnasvæði Flekkudalsár veiddust 204 laxaseiði af fimm aldurshópum (0+ til 4+) og 11 urriðaseiði af þremur aldurshópum (0+ til 2+). Allir aldurshópar laxaseiða voru lítilsháttar undir langtímameðaltali að lengd en samanlögð þéttleikavísitala þeirra var 19,4/100 m2 að meðaltali, 24% yfir langtímameðaltali (15,6/100 m2). Vísitala sumargamalla (0+) laxaseiða var 8,1/100 m2 að meðaltali, veturgamalla (1+) var 8,2/100 m2 að meðaltali og tveggja vetra (2+) var 2,2/100 m2 að meðaltali. Lítið veiddist af eldri laxaseiðum (3+ og 4+) en slangur veiddist af urriðaseiðum og var seiðavísitala þeirra hæst á stöð nr. 5, þ.e. 3,2/100 m2 en yfir allt svæðið var hún einungis 0,9/100 m2 að meðaltali á stöð. Mælt er með að halda áfram á sömu braut veiðistjórnunar á vatnasvæði Flekkudalsár, þ.e. að leggja áfram áherslu á að sleppa öllum stórlaxi og takmarka fjölda landaðra smálaxa í veiðinni auk þess að viðhalda friðun efri svæða ánna. Meðan sjávarskilyrði eru með þeim hætti að laxar virðast endurheimtast illa úr sjávardvölinni er mikilvægt að vernda hrygningarstofninn með ábyrgri veiðstjórnun og tryggja þannig nægjanlega hrygningu í ánni.

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Haf- og vatnarannsóknir (2016-)
Útgáfurit Haf- og vatnarannsóknir
Útgáfuár 2023
Blaðsíður 12
Útgefandi Hafrannsóknastofnun
Leitarorð Lax, stangaveiði, seiðarannsóknir, hreisturrannsóknir, friðun svæða, veiða og sleppa, urriði, seiðavísitala, veiðistjórnun
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?