Botngerðarmat á fiskgengum hlutum Álftár og Veitu á Mýrum. HV 2023-17

Nánari upplýsingar
Titill Botngerðarmat á fiskgengum hlutum Álftár og Veitu á Mýrum. HV 2023-17
Lýsing

Vatnasvið Álftár er 118 km2 og bera vatnsföll lindár- og dragáreinkenni. Álftá og Veita renna undan hraunjaðri en berggrunnurinn er tiltölulega ungur og gljúpur. Fljótlega renna árnar út á gróið láglendi Mýranna sem draga nafn sitt af víðfeðmum votlendisflóum þar sem klettaásar og klapparholt setja einnig svip á landslagið. Talsvert er af tjörnum og smáum vötnum sem miðla næringarríku vatni í árnar og gegna fjölmargir lækir á svæðinu hlutverki dragáa sem miðla vatni í vatnavöxtum. Álftá rennur út í Álftárós sem er víðfeðmt ósasvæði suðvestur af Mýrum. Búsvæði laxfiska í Álftá og Veitu á Mýrum voru kortlögð með botngerðarmati sumarið 2021, með það að markmiði að meta framleiðslugetu þeirra fyrir lax á fiskengum hlutum ánna og var það í fyrsta sinn sem nákvæm kortlagning búsvæða fór fram á vatnasvæði Álftár. Heildarlengd fiskgengra hluta Álftár og Veitu var 25.157 m, þar af var lengd Álftár frá rafstöðvarstíflu að ósasvæði 13.555 m og lengd Veitu, frá efstu hindrun að ármótum, 11.602 m. Sjálft ósasvæðið, sem ekki lá til grundvallar botngerðarmatinu, var 7.680 m að lengd, frá Sjávarfossi að skilgreindum ósi skv. ósamati. Fiskgengum hluta Álftár og Veitu var skipt í sex kafla eftir grófleika botnefna og straumlagi og var botngerðin metin á 32 sniðum víðsvegar um svæðið. Kaflar 1 – 4 eru í Álftá og kaflar 5 og 6 eru í hliðaránni Veitu. Framleiðslugildi (FG) í Álftá var 19,6 að meðaltali og í Veitu 28,5 að meðaltali en á svæðinu öllu var það 22,6 meðaltali. Heildarflatarmál þess svæðis sem lá til grundvallar botngerðarmatinu var 393.490 m2 og var fjöldi framleiðslueininga 10.213 og skiptust þannig að 6.804 (66,6%) tilheyrðu Álftá og 3.409 (33,4%) tilheyrðu Veitu. Niðurstöður botngerðarmatsins nýtast til að skoða hlutdeild einstakra árhluta hvað varðar framleiðslugetu fyrir lax og einnig er unnt að meta framleiðslugetu árinnar fyrir einstakar jarðir.

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Flokkun
Flokkur Haf- og vatnarannsóknir (2016-)
Útgáfurit Haf- og vatnarannsóknir
Útgáfuár 2023
Blaðsíður 17
Útgefandi Hafrannsóknastofnun
Leitarorð botngerðarefni, uppeldisskilyrði, hrygningarskilyrði, framleiðslugildi, framleiðslueiningar, ósasvæði, laxaberandi svæði, gönguhindrun, botngerðarkafli, kaflaskil
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?