Ágrip
Orka Náttúrunnar fór þess á leit við Hafrannsóknastofnun að botngerð Andakílsár yrði metin, hvorutveggja ofan og neðan Andakílsárvirkjunar. Botngerðarmatið var gert í þeim tilgangi að meta stærð og gæði búsvæða laxfiska í Andakílsá.
Andakílsá á upptök sín í Skorradalsvatni (14,7 km2) og er ein af þverám Hvítár í Borgarfirði. Hún fellur að sunnanverðu í Hvítárós, samtals um 13 – 14 km leið. Andakílsárfossar eru um 3,5 km neðan Skorradalsvatns, ófiskgengir með öllu, og voru þeir virkjaðir til raforkuframleiðslu með byggingu Andakílsárvirkjunar á árunum 1945 – 1947. Miðlunarstífla var reist við útfall Skorradalsvatns og sunnan við árfarveginn var grafinn um 0,8 km langur veituskurður til að miðla vatni í Andakílsá. Hluti vatnsins rennur að staðaldri eftir gamla farveginum og á yfirfalli er umframvatni beint þangað. Ofan Andakílsárfossa var reist stífla sem myndar um 10 ha inntakslón og þaðan er vatnsmagni stýrt niður í virkjunina. Stöðvarhúsið stendur skammt neðan fossanna og er virkjuðu rennsli skilað þar út í farveginn.
Heildarlengd Andakílsár og hliðaráa á svæðinu milli Skorradalsvatns og inntakslóns Andakílsárvirkjunar, var 11.250 m en þar af var lengd Andakílsár (að veituskurði meðtöldum) 5.016 m. Heildarflatarmál metinna árfarvega var 157.966 m2 og lögðu hliðarárnar til 30 – 40% framleiðslueininganna (FE).
Heildarlengd þess hluta Andakílsár (3.312 m) neðan virkjunar sem lá til grundvallar matinu og hliðarlækja hennar var 10.374 m. Heildarflatarmál þess svæðis var 86.665 m2 og lögðu hliðarlækirnir til um 20% framleiðslueininganna. Samanlögð lengd fiskgengra hluta Árdalsár og Tunguár var 3.718 m og var heildarflatarmálið 16.792 m2.
Í seiðamælingum á svæðinu ofan virkjunar fundust staðbundin urriða- og bleikjuseiði í litlum þéttleika. Á svæðinu neðan virkjunar veiddust sex tegundir; lax, bleikja, urriði, hornsíli, áll og flundra. Laxaseiði voru í miklum meirihluta og nánast allsráðandi í Andakílsá, Hrafnagilslæk og Bæjarlæk og veiddust á öllum stöðvum á svæðinu nema í Árdalsá og Tunguá. Urriði var algengastur í lygnari hliðarlækjum og Árdalsá. Bleikja kom fyrir í Ausulæk og Tunguá. Töluverður þéttleiki hornsíla var í Fossalandbroti og áll og flundra veiddust í Ausulæk.
Skilyrði til hrygningar– og uppeldis laxfiskaseiða mældust almennt slök í Andakílsá en neðan virkjunar gaf matið til kynna þokkaleg hrygningar- og uppeldisskilyrði ungra laxaseiða í efri hluta árinnar. Botngerðarmatið sýnir hinsvegar, með hliðsjón af hrygningar– og uppeldisskilyrðum laxfiskaseiða, að hliðarár og lækir hafa mikla þýðingu fyrir seiðaframleiðslu vatnasvæðisins. Ofan virkjunar er hlutdeild framleiðslueininga hliðaránna um 30 – 40% af heildarfjöldanum, allt eftir því hvaða fisktegunda horft er til. Neðan virkjunar, þar sem reiknað er út frá laxi, sem er ríkjandi tegund, er hlutdeild hliðarlækjanna tæplega 20% af heildarfjölda framleiðslueininganna en þar munar mest um Hrafnagilslæk og Bæjarlæk sem eru með hæstu framleiðslugildin í matinu. Framleiðslugildi Árdalsár og Tunguár voru reiknuð sér og með hliðsjón af hrygningar– og uppeldisskilyrðum fyrir silung og reyndust skilyrði hentugri fyrir urriða en bleikju. |